Ferðamenn stytta dvölina á Íslandi

Ferðamenn bera föggur sínar í Pósthússtræti.
Ferðamenn bera föggur sínar í Pósthússtræti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðaldvöl útlendinga hér á landi styttist á síðasta ári og fór úr fjórum og hálfri nótt niður í 3,8 nætur. Vefsíðan Túristi.is greinir frá þessu. 

Þar kemur fram að síðustu ár hafi gistinóttum útlendinga hér á landi fjölgað hlutfallslega í takt við aukninguna í komu erlendra ferðamanna til landsins.

„Árið 2015 fjölgaði ferðamönnunum hins vegar aðeins meira en gistinóttum útlendinga. Í fyrra rofnaði samband þessara tveggja stærða því þá fjölgaði ferðamönnunum um 40% en gistinóttunum um 22%. Þar með styttist meðaldvöl útlendinga hér á landi niður í 3,8 nætur eftir að hafa verið í kringum fjóra og hálfa nótt nær undantekningarlaust á árunum 2003 til 2015 eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan,“ segir á vefsíðunni.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Árni Sæberg

Túristi.is vann samanburðinn úr tölum Hagstofu Íslands um heildargistináttafjölda útlendinga og talningu Ferðamálastofu á komum erlendra ferðamanna. Inni í tölunum eru ekki gistingar í óskráðu gistirými, til dæmis í Airbnb.

„Mögulegar skýringar á því að meðaldvöl útlendinga hér á landi minnki svona snögglega í fyrra, eftir að hafa staðið í stað nær alla þessa öld, kann að skrifast á mikla styrkingu krónunnar. Hver nótt á íslensku hóteli er orðin nokkuð dýrari en hún var í fyrra eða árin þar á undan og því gætu margir kosið að stytta dvölina. Önnur möguleg skýring er sú að hlutfall skiptifarþega Icelandair og WOW air í ferðamannafjöldanum sé orðið mun hærra en áður,“ segir á vefsíðunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert