„Mér finnst það mjög ólíklegt vegna þess að bæjarfélagið mun síðan selja lóðirnar og ríkið fær hlutdeild í þeirri sölu,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, spurður hvort hann telji að ríkið sé að verða af tekjum af sölunni á Vífilsstaðalandi til Garðabæjar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur óskað eftir sérstakri umræðu við fjármálaráðherrann um söluna á Vífilsstaðalandi. Hann gagnrýnir meðal annars lágt verð á jörðinni.
„Ég hef ekki séð það en Sigurður veit þá meira en ég veit,“ segir Benedikt, spurður hvort hann hafi heyrt ummæli Sigurðar Inga um söluna.
Sala jarðarinnar er með þeim hætti að ríkið fær greidda ákveðna fjárhæð núna og síðan á ríkið hlutdeild í lóðasölum. „Ríkið á eftir að fá pening fyrir þessa landsölu mörg ár fram í tímann, allt að fjörutíu ár. Ég á von á að það verði stór hluti af tekjunum sem ríkið fær fyrir söluna,“ segir Benedikt.
Vífilsstaðaland var selt á sanngjörnu verði, að sögn Benedikts. Hann bendir á að vilji hafi verið hjá ríkinu að selja bæjarfélaginu því það hyggst byggja upp nýtt hverfi. Ríkið vinni að því með bæjarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að byggja upp húsnæði sem er á sanngjörnu verði.
„Það er líklegt að ef land er selt á of háu verði komi það fram í háu lóðaverði. Ég hef lýst því yfir að ríkið eigi ekki að vera í lóðabraski en það eru skiptar skoðanir á því. Ríkið er að semja við bæjarfélag og við töldum það vænlegra en að semja við lóðabraskara,“ segir Benedikt, spurður hvort hann telji að þetta hafi verið sanngjarnt verð.