„Allir sammála að þetta er fáránlegt“

Dr. Ashley Mears, dósent við Boston University hélt fyrirlestur um …
Dr. Ashley Mears, dósent við Boston University hélt fyrirlestur um „eina prósentið“ svokallaða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dr. Ashley Mears, dósent í félagsfræði við Boston University, varði einu og hálfu ári í umhverfi ofurríkra á skemmtistöðum hinna útvöldu þar sem kampavínsflöskur kosta að lágmarki þúsund dali. Allt var þetta hluti af doktorsverkefni hennar og bók sem hún síðar gaf út um rannsókn sína á „eina prósentinu“ svokallaða og hvernig það sér stöðu sína og stétt.

Mears er nú stödd hér á landi og hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag um niðurstöður rannsókna sinna.

Efnahagsleg elíta landsins

Það er ekki sjálfgefið að geta gert rannsókn á ríkasta hluta samfélagsins og segir Mears að sá hópur passi oftar en ekki betur upp á friðhelgi einkalífsins en flestir aðrir hópar. Hún hafi aftur á móti fundið sér leið inn í þennan hóp í gegnum einskonar kynningarstjóra skemmtistaðanna.

Mears segir að þó hún geti ekki fullyrt að þeir sem hafi sótt þessa staði séu í raun ríkasta prósentið, þá séu þeir engu að síður í efnahagslegri elítu landsins og að neysla þeirra sé gríðarlega mikil og þeir hiki jafnvel ekki við að kaupa fjölmargar kampavínsflöskur sem hver og ein kosti nokkur þúsund dali á hverju kvöldi. „Ég var áhugasöm um þennan neytendahóp sem keypti rándýrt kampavín,“ segir Mears.

Fá borgað fyrir að koma með ungar stelpur á staðina

Hún hafði áður unnið í tískugeiranum og þannig komist í samband við nokkra af kynningarstjórunum og haldið sambandi við þá. Þeir hafi því verið tilbúnir að aðstoða sig með þessa rannsókn og koma henni inn á umrædda skemmtistaði. „Ég þurfi bara að mæta í kjól og háum hælum og falla inn í hópinn,“ segir hún og bætir við hlægjandi að það hafi reyndar stundum reynst erfitt þar sem hún hafi verið 31-32 ára á þessum tíma, en flestar aðrar stelpur á aldrinum 18-22 ára.

Mears segir að kynningarstjórar eigi að draga að ríka viðskiptavini, en þeir starfsmenn sem séu dýrmætastir séu þeir sem geti komið með 5-10 stelpur sem séu módel á skemmtistaðina. Fyrir slíkt fái þeir um 1.000 dali fyrir kvöldið.

Markaður fyrir karlmenn, rekinn af karlmönnum með konur

„Þetta er rosalega hagnaðardrifinn markaður fyrir karlmenn, rekinn af karlmönnum með konum,“ segir Mears. Hún segir að konur sem þrífist í þessu líferni séu alltaf kallaðar stelpur eða partí stelpur (e. girls, party girls) og þær eigi það sammerkt að vera ungar, fallegar og vinna í módelgeiranum. Þá geti þær ekki verið með fjölskyldu eða aðra vinnu þar sem þær þurfi að hafa mikinn tíma til að skemmta sér, jafnvel alla vikuna.

Varðandi hvað stelpuhugtakið sé fast sem ákveðið hugtak þegar komi að þessum geira nefnir hún sem dæmi að þegar Ivanka Trump, dóttir Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hafi verið kynnt í kosningabaráttunni hafi mikil orka farið í að segja að þótt hún væri módel hafi hún ekki verið partí stelpa. „Stelpur eru með sérstaka stöðu í þessum heimi,“ segir Mears og bætir við að það sé í raun karlmaðurinn, sem sé neytandinn, sem hafi öll völd í krafti peninga.

Hún segir stelpurnar sem fari í þennan lífstíl oftast ekki eiga efni á að fara inn á skemmtistaði ríka fólksins. Aðgangi fylgi matarboð í byrjun og svo frítt áfengi allt kvöldið og aðgangur að þessum einkaheimi hinna ríku.

Mears segir að aðrar konur hafi jafnan verið 18-22 ára …
Mears segir að aðrar konur hafi jafnan verið 18-22 ára á skemmtistöðunum, en hún sjálf rúmlega 30 ára. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

Eyðslan réttlætt með að einhver eyði meiru

Mears segir að hún hafi rætt við nokkurn hóp fólks sem sótti þessa staði til að ræða við þau um viðhorf sitt til rándýrrar neyslu, þessa forréttindalífs og ástæðu þess að það sæki í þessa tegund af skemmtun. Hún segir að flestir hafi deilt þeirri hugmynd að „eyðslan væri ógeðsleg.“ Það hafi í raun komið henni á óvart hvað allir væru sammála um það, bæði þeir sem væru fæddir ríkir eða hefðu unnið sér inn fjármunina sjálfir.

„Fólkinu fannst það samt geta réttrætt þetta með því að einhver annar hefði notað meira,“ segir Mears og að þar sem það ynni gríðarlega mikið þá hefði það rétt á að sletta almennilega úr klaufunum inn á milli. Það hafi samt allir sagt að kaup á rándýru kampavíni eða að taka þátt í þessum lífstíl væri ekki góð notkun á fjármunum, þau töldu sig samt öll vera á „réttu hliðinni á þessu brjálæði.“

Mikið lagt í að gera eyðsluna eðlilega

Mears segir að þegar hún kom fyrst inn í þennan heim hafi það komið henni mikið á óvart hversu sýnileg eyðslan hafi verið. Fólki hafi verið mikið í mun um að sýna hversu ríkt það hafi verið, en að sama skapi hafi það oftar en ekki skammast sín fyrir hversu miklum pening það eyddi. „Það vita allir að þú kaupir svona dýrar flöskur til að líta vel út, en það eru allir sammála að þetta er fáránlegt.“ 

Þá segir hún skemmtistaðina hafa gert eyðsluna eðlilega og ýtt undir sýninguna með því að bera veigar fram á gyltum bökkum, hafa stjörnuljós á dýrum kampavínsflöskum og láta þannig alla á staðnum verða vara við það þegar einhver var að kaupa dýrari flöskurnar. Mears segir dýrustu flöskurnar hafa kostað allt að 40 þúsund dali, en það jafngildir um 4,5 milljónum. Slíkar flöskur hafi verið stærri en hefðbundnar flöskur, en kostnaður við flöskur margfaldaðist alltaf eftir því sem flöskurnar urðu stærri og þar með sýnilegri.

Sjálf fór Mears á 17 mismunandi skemmtistaði á þessu eina og hálfa ári og segir að um hafi verið að ræða 120-130 nætur sem hún fór út. Í gegnum allan þennan tíma segir hún að fyrsta kvöldið hafi komið henni mest á óvart, þó það hafi í raun ekkert verið öðruvísi frá öðrum kvöldum. Það hafi hreinlega verið það mikla magn peninga sem var spreðað í hluti sem fólkið sjálft talaði svo um að væri óþarfi og hvernig þessu var svo flaggað til að sýna sig fyrir öðrum á skemmtistaðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert