Jón Valur Jensson guðfræðingur var í dag sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af ákæru um hatursorðræðu. Var í ákærunni talið að ummæli á blog-síðu hans fælu í sér háð, rógburð og smánun á opinberum vettvangi í garð ótilgreinds hóps manna vegna kynhneigðar og kynvitundar þeirra.
Nokkur fjöldi einstaklinga var ákærður í fyrra fyrir hatursorðræðu, en lögreglustjóri lét málin fyrst falla niður en ríkissaksóknari fór fram á að þau yrðu tekin upp að nýju. Þá vísaði héraðsdómur frá máli Péturs Gunnlaugssonar, útvarpsmanns á Útvarpi Sögu, en Hæstiréttur dæmi að taka skyldi málið fyrir efnislega. Var Pétur sýknaður fyrr í þessum mánuði.
Málin eiga rætur sínar að rekja til þess að tilkynnt var að hinsegin fræðsla yrði hluti af kennsluefni grunnskóla í Hafnarfirði. Spruttu upp miklar umræður um það mál og var Jón Valur meðal þeirra sem tjáðu sig um það mál. Var hann ákærður fyrir eftirfarandi ummæli sem birtust á blogginu hans: „Fræðsla um fjölbreytileika mannsins“ á ekki að vera á hendi þeirra, sem hafa sína einhæfu, þröngu og skekktu sýn á kynferðismál. Samtökin 78 eru hagsmunasamtök, ekki hlutlægt og hlutlaust fræðasamfélag. Fulltrúar þessa samtaka hafa ekkert með það að gera að móta hugarfar barna, sem þeir eiga ekki […]
Pétur sem er lögfræðingur að mennt var verjandi Jóns Vals í hans máli og staðfestir hann að Jón hafi verið sýknaður í morgun. Segir hann dómstólinn hafa vísað í tjáningarfrelsisákvæði laga og Mannréttindasáttmálann máli sínu til stuðnings, svipað og í hans máli.
„Þetta lítur ekki vel út fyrir ákæruvaldið,“ segir Pétur eftir að sýknað hefur verið í báðum málunum. Hann segist ánægður með niðurstöðuna, en að þetta sýni að ákæruvaldið hafi farið af stað með mál sem voru ólíkleg til sakfellingar. Niðurstaðan er að sögn Péturs mikilvæg fyrir Jón Val, enda sé hann fræðimaður og hafi verið að ræða málið á þeim nótum. „Hann hefur rétt á því að hafa þessar skoðanir og það skiptir hann miklu máli að fá ekki sakfellingu fyrir þessi ummæli,“ segir Pétur.
Sjálfur er Pétur verjandi í þriðja málinu sem verður tekið fyrir í næsta mánuði, en auk þess eru einnig nokkur svipuð mál fyrir dómstólum, en þau byggja öll á því að hatursorðræðu hafi verið beitt.