„Dómur almennings liggur fyrir“

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.
Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra. mbl.is

„Ég held að það þurfi ekk­ert að leita álits á þessu. Ég held að staðreynd­irn­ar tali bara sínu máli. Þegar við stofnuðum þenn­an flokk var hann næst­stærst­ur ís­lenskra stjórn­mála­flokka og þróaðist síðan upp í það að vera stærst­ur. Síðan hrundi hann og það get­ur eng­inn kennt öðrum um en þeim sem veittu flokkn­um for­ystu. Þetta er bara þessi sorg­lega niðurstaða og það þýðir ekk­ert fyr­ir mig eða aðra að halda öðru fram. Þetta er bara svona.“

Frétt mbl.is: Tel­ur Sam­fylk­ing­una eiga fullt er­indi

Þetta seg­ir Sig­hvat­ur Björg­vins­son, fyrr­ver­andi þingmaður og ráðherra, en Jón Bald­vin Hanni­bals­son, fyrr­ver­andi formaður Alþýðuflokks­ins, sagði í gær að til­raun­in með Sam­fylk­ing­una hefði mistek­ist. Hef­ur hann boðað mögu­lega stofn­un nýs stjórn­mála­flokks jafnaðarmanna. Sig­hvat­ur var formaður Alþýðuflokks­ins þegar Sam­fylk­ing­in var sett á lagg­irn­ar með samruna Alþýðubanda­lags­ins, Þjóðvaka og Kvenna­list­ans auk Alþýðuflokks­ins. Hann sat á þingi í rúma tvo ára­tugi. Fyrst fyr­ir Alþýðuflokk­inn og síðan Sam­fylk­ing­una.

For­ystu­menn­irn­ir skýri fall Sam­fylk­ing­ar­inn­ar

Spurður hvort hann telji Sam­fylk­ing­una geta náð aft­ur sömu stöðu og áður seg­ist Sig­hvat­ur ekki vita það. Flokk­ur­inn hafi fengið mikla vöggu­gjöf en for­ystu­menn­irn­ir sem síðan hafi tekið við hon­um yrðu að skýra ófar­ir hans. „Mér finnst al­veg kom­in skýr­ing á því að þeir svari því hvernig standi á því að flokk­ur sem þeir hafi tekið við í um og yfir 30% fylgi sé kom­inn niður í það sem hann er núna. Ef þeir hafa ekki skýr­ing­una hver á þá að hafa hana?“

Frétt mbl.is: Vill sam­eina jafnaðar­menn

Þar með sé ekki sagt að það hafi verið mis­tök að stofna Sam­fylk­ing­una. Það hafi verið eitt­hvað sem hafi orðið að ger­ast. „Hins veg­ar var nýj­um aðilum fal­in for­yst­an og þeir skiluðu flokkn­um svona. Það er kom­inn tími til þess að þeir svari því. Ingi­björg Sól­rún [Gísla­dótt­ir] og Jó­hanna Sig­urðardótt­ir og fleiri. Hvernig standi á þessu að þeirra mati að svona hafi farið. Þeirra er að svara þessu en ekki okk­ar sem lögðum þetta tæki­færi upp í hend­urn­ar á þeim.“

Kyn­slóðir sem þekkja ekki Alþýðuflokk­inn

Spurður hvort hann telji rétt að end­ur­vekja Alþýðuflokk­inn sem sjálf­stætt stjórn­mála­afl, en flokk­ur­inn er enn til sem hluti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, seg­ist Sig­hvat­ur hrædd­ur um að það kunni að vera of seint. Komn­ar séu fram kyn­slóðir sem ekki þekki Alþýðuflokk­inn og fyr­ir hvað hann hafi staðið. „Við stóðum fyr­ir ákveðna hluti sem eru minni kyn­slóð í fersku minni og hvort sem aðrir voru sam­mála okk­ur eða ekki vissu þeir fyr­ir hvað við stóðum.“

Vand­inn sé hins veg­ar sá að þær kyn­slóðir sem tekið hafi við viti lítið eða ekk­ert um Alþýðuflokk­inn og póli­tísk­ar áhersl­ur hans á sín­um tíma. „Þær vita hins veg­ar fyr­ir hvað þeir standa sem við tóku og niðurstaða dóms al­menn­ings ligg­ur fyr­ir.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka