Hugmyndaflug tollvarða og fagleg vinnubrögð urðu þess valdandi að nýlega tókst að leggja hald tæplega tvo lítra af fljótandi kókaíni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, að sögn Kára Gunnlaugssonar yfirtollvarðar.
„Þetta voru frábær vinnubrögð hjá tollvörðum,“ segir Kári.
Þetta er í fyrsta sinn sem lagt er hald á fljótandi kókaín hér á landi og er mjög erfitt að greina þessa gerð af kókaíni við gegnumlýsingar og röntgenmyndatökur.
Vökvanum hafði verið komið fyrir í fjórum brúsum sem merktir voru sem munnskol, sápur og sjampó. Samtals var um að ræða 1.950 millilítra.
Kári kveðst ekki hafa heyrt af því að kókaíni sé í auknum mæli smyglað á þennan hátt á milli landa erlendis. „Það er dálítil vinna við að breyta þessu í vökva og sjálfsagt einhver vinna við að koma því aftur í neyslu, því þetta fer ekki í neyslu svona,“ segir hann og telur efnið það sama og venjulegt kókaín.
„Þarna er verið að koma þessu í þannig umbúðir að það sé erfiðara fyrir okkur að finna efnið. Við höfum aðferðir við að gera prófun á svona efni þó að þau séu í þessu blautformi en þetta er alltaf erfiðara heldur en þegar við erum að tala um poka með hvítu efni.“
Kári segist ekki vita hvað þessir tveir lítrar af fljótandi kókaíni samsvari miklu magni í venjulegu formi eða hvers virði það er á götunni.
Tollstjóri minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann. Einnig má koma ábendingum um smygl inn á símsvara 5528030 hjá embætti Tollstjóra.