Brot bónda sem dró kú til dauða á eftir bíl sínum er ömurlegt að sögn Sigurborgar Daðadóttur yfirdýralæknis. Bóndinn slapp með áminningu, en Matvælastofnun var ekki byrjuð að beita refsiákvæðum núgildandi laga þegar brotið var framið.
Í gögnum sem fréttastofa RÚV hefur undir höndum segir að kýrin hafi lagst í tvígang og verið barin með girðingastaur eftir að hún náðist í kjölfar mikils eltingaleiks.
Samkvæmt gögnum sem úrskurðanefnd um upplýsingamál skyldaði Matvælastofnun að afhenda fréttastofu RÚV um málið er þar að finna tvenns konar mismunandi lýsingu á því hvað gerst hafi.
Í frétt RÚV segir að haft hafi verið eftir ungri dóttur bóndans að kýrin hafi ekki viljað fara aftur inn þegar kúnum var hleypt út í fyrsta sinn að vori. Hún hafi þó verið fönguð eftir mikinn eltingaleik, sem lauk með því band var sett um háls hennar og hún dregin til dauða.
Áður á kýrin að hafa lagst í tvígang, þar sem hún hafi verið dregin á eftir bílnum og aukinheldur segir dóttirin kúna hafa verið barða með girðingarstaur. Kýrin stóð síðan ekki upp er hún lagðist í seinna skiptið og var þá dregin aftan í bílnum heim að fjósi.
Í frásögn bóndans segir hins vegar að kýrin hafi tryllst þegar til stóð að setja hana inn í fjós aftur. Segir bóndinn kúna hafa snúist gegn sér og hann hafi þá varið sig með girðingarstaur. Sér hefði þó tekist að koma bandi á kúna, en það síðan losnað af henni. Að lokum hafi honum þó tekist að setja múl á kúna og hafi hann dregið hana heim eftir það. Þegar heim var komið hafi hún hins vegar verið lífvana. Segir í bóndinn að sér finnist leitt hvernig farið hafi og að hann geri sér fulla grein fyrir að brotið hafi verið mjög alvarlegt.