„Þetta eru vissulega miklir strókar, en því miður er þetta ekki óalgengt. Ísland er mjög stór uppspretta þegar kemur að sandstormum og teygja þeir sig gjarnan mörg hundruð kílómetra út á haf,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, jarðfræðingur við Háskóla Íslands.
Vísar hún í máli sínu til þess að Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur birt MODIS-mynd, sem tekin var í gær, og sýnir hún meðal annars stóra og mikla sandstróka.
Eiga þeir einkum upptök sín á Mýrdalssandi og Meðallandssandi, en einnig úr farvegi Skaftár. Um miðjan dag í gær náðu strókarnir mörg hundruð kílómetra út á Atlantshaf, en að sögn Ingibjargar voru þá kjöraðstæður fyrir myndun þeirra.