Sprengt næstu vikur í Sundahöfn

Neðansjávarsprengingar voru framkvæmdar við Kleppsbakka við Sundahöfn á sunnudaginn.
Neðansjávarsprengingar voru framkvæmdar við Kleppsbakka við Sundahöfn á sunnudaginn.

Sprengingar fyrirtækisins Ístaks í Sundahöfn munu halda áfram næstu þrjár vikur og verða þær á þriggja til fjögurra daga fresti. Þetta segir Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks.

Margir íbúar höfuðborgarsvæðisins urðu varir við jarðskjálfta á sunnudaginn. Síðar var greint frá því að um var að ræða neðansjávarsprengingar Ístaks við Kleppsbakka.

Fara eftir lögum og reglum 

Að sögn Karls standa yfir tveggja milljarða framkvæmdir við nýtt hafnarsvæði Faxaflóahafna sem verður tilbúið á næsta ári. Verið er að sprengja fyrir stálþili sem á að dýpka. „Þetta er 160 metra renna sem þarf að dýpka áður en þilið er rekið niður í það,“ segir hann.

Sprengingarnar hófust tíu dögum fyrir páska og hafa þær verið framkvæmdar á þriggja til fjögurra daga fresti. „Það er farið eftir öllum lögum og reglum varðandi sprengivinnu og búið að tilkynna hana til allra hlutaðeigandi aðila.“

Frá urðunarstöð Sorpu í Álfsnesi.
Frá urðunarstöð Sorpu í Álfsnesi. Sigurður Ægisson

Líka verið að sprengja í Álfsnesi

Íbúi í Grafarvogi hafði samband við fréttastofu Rúv og vegna tíðra sprenginga og sagði hún að íbúum Grafarvogs hafi ekkert verið tilkynnt um þær fyrir fram.

Karl bendir á að það tíðkist ekki að fara svo langt út fyrir sprengjusvæðið með tilkynningar. Hann nefnir að það sé líka verið að sprengja hinum megin við Grafarvog og að þær sprengingar séu mun stærri. Mögulega eigi konan við þær framkvæmdir. „Það getur vel verið að þessi hristingur sé af okkar völdum en miðað við hvernig konan lýsir þessu gætu þetta verið öflugri sprengingar.“

Á hann þar við sprengingar sem Íslenskir aðalverktakar framkvæma við urðunargryfju Sorpu í Álfsnesi. 

Að sögn Olivers Claxton, verkefnastjóra hjá Íslenskum aðalverktökum, hófust framkvæmdirnar í október síðastliðnum og mun þeim ljúka í næsta mánuði. Sprengt er í mesta lagi þriðja hvern dag en allt niður í einu sinni í viku. Tilkynnt hefur verið um sprengingarnar til Veðurstofu Íslands. Hann kveðst ekki hafa orðið var við kvartanir frá neinum íbúum vegna framkvæmdanna. 

Urðunargryfjan verður 360 þúsund rúmmetrar að stærð og fer grjótið sem fellur til við sprengingarnar í landfyllingu í Álfsnesi á svæði Sorpu.

Á athafnasvæði Eimskips í Sundahöfn.
Á athafnasvæði Eimskips í Sundahöfn. mbl.is/Rósa Braga

400 kíló af sprengiefni í einu

Samkvæmt Karli er verið að losa um klöpp í Sundahöfn á fjögurra og hálfs til sex metra dýpt. Með hverri sprengingu eru boraðar um tíu holur og tekur hver hola um 40 kílógrömm af sprengiefni. Um 400 kíló af sprengiefni eru því notuð í hverri sprengingu.

Hann segir aðferðina við stálþilið aldrei hafa verið notaða áður á vegum fyrirtækisins. Með framkvæmdunum lengist hafnarsvæðið um rúma 420 metra og mun Eimskip njóta góðs af því í tengslum við flutninga á milli Íslands og Grænlands.

10 milljarða verkefni á Grænlandi

Ístak er einnig að byggja upp nýtt hafnarsvæði í Nuuq á Grænlandi og verður það verkefni klárað í sumar. „Það er stórt verkefni á grænlenska vísu og einnig íslenska,“ segir Karl en verksamningurinn hljóðar upp á tæpa 10 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert