Telur Samfylkinguna eiga fullt erindi

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er nú ekki sammála því, það er ekkert útséð um það. Það hafa auðvitað verið öldudalir eins og hefur gerst hjá öðrum flokkum. Við fórum mjög djúpt síðast, því er ekki að leyna, og það gefur fulla ástæðu til þess að staldra við og hugsa hlutina vel upp á nýtt. En við teljum hins vegar að við eigum erindi og munum halda ótrauð áfram.“

Þetta segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við þeim orðum Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins, að tilraunin með Samfylkinguna hefði mistekist.

Frétt mbl.is: Vill sameina jafnaðarmenn

Samfylkingin var stofnuð í lok síðustu aldar með samruna Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins, Kvennalistans og Þjóðvaka en Jón Baldvin hefur stundum verið kallaður guðfaðir hennar. Jón Baldvin sagði í samtali við mbl.is í gær að mögulegur nýr flokkur jafnaðarmanna væri í kortunum. Ummælin lét hann falla í kjölfar fundar í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur þar sem möguleg stofnun nýs flokks var rædd.

„Við erum annars svo heppin að búa í þannig samfélagi þar sem hver og einn getur ákveðið með hvaða hætti hann sinnir sínum stjórnmálakröftum og hvort hann stofnar nýjan flokk. Við því er ekkert að segja. Ég óttast hins vegar að enn fleiri flokkar muni aðeins auka á sundrunguna og vera vatn á myllu hægriaflanna. En það hlýtur hins vegar alltaf að vera til skoðunar með hvaða hætti menn fylkja sér saman,“ segir Logi.

„Við teljum hins vegar að Samfylkingin byggi á mjög sterkri grasrót. Hún er öflug í sveitarstjórnum mjög víða þótt þingflokkurinn sé lítill. Við teljum að það hafi komið skýrt fram núna á fyrstu 100 dögum núverandi ríkisstjórnar að erindi okkar er brýnna en nokkru sinni áður. Síðan sjáum við bara til hvað gerist,“ segir hann enn fremur. 

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert