Einhyrningur nýtur heimsfrægðar

Smal­ar héldu að Ein­hyrn­ing­ur væri geithaf­ur.
Smal­ar héldu að Ein­hyrn­ing­ur væri geithaf­ur. Ljósmynd/Erla Þórey

„Hann er frægasti hrútur Íslands, það er alveg á hreinu,“ segir Erla Þórey Ólafsdóttir, bóndi í Hraunkoti í Landbroti og eigandi hrútsins Einhyrnings. Einhyrningur hefur síðustu klukkustundirnar komist í heimsfréttirnar fyrir einstakt útlit sitt en aðeins eitt myndarlegt horn, eða tvö samvaxin, eru á höfði hans.

Viðtalið við Erlu, sem Kristín Heiða Kristinsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu tók og birti í síðustu viku, og var þýtt á ensku á Iceland Monitor, hefur vakið mikla athygli og hver fjölmiðillinn á fætur öðrum hefur sagt frá hrútnum. Þannig hafa BBC, Daily Mail, Machable, News Week og Yahoo7 News birt fréttina. Hún hefur einnig birst í mexíkóskum og þýskum fjölmiðlum svo dæmi séu tekin.

Ævintýraleg athygli

Erla segir þessa athygli hafa komið skemmtilega á óvart. Hún hafi þó ekki stigið Einhyrningi til höfuðs. Hann haldi áfram sínu daglega lífi í fjárhúsinu eins og ekkert hafi í skorist.

„Ég átti alls ekki von svona miklum viðbrögðum, langt í frá,“ segir Erla hlæjandi þegar blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til hennar í morgun. „Ég hef bara gaman að þessu, þetta er ævintýri. En ég er svolítið hissa!“

Miðju­börn­in í systkina­hópn­um í Hraunkoti, Bjarni Dag­ur og Ólöf Ósk …
Miðju­börn­in í systkina­hópn­um í Hraunkoti, Bjarni Dag­ur og Ólöf Ósk Bjarna­börn, gauka heyi að Ein­hyrn­ingi. Ljósmynd/Erla Þórey

Einhyrningur fæddist með samvaxin horn í fyrravor. Hann fór eins og önnur lömb til fjalla í fyrrasumar en skilaði sér ekki í leitum í haust. „Við vorum satt að segja búin að steingleyma honum þegar hann kom til byggða í eftirleit skömmu fyrir jólin,“ sagði Erla í Morgunblaðinu í síðustu viku. Fyrir vikið varð hann sér úti um lengra líf en flestir þeir lambhrútar sem komu í heiminn á sama tíma og hann síðasta vor, þeir fóru í slátur hús í haust að loknum réttum.

Frekar rýr en í góðum gír

Einhyrningur er frekar rýr að sögn Erlu, mögulega frá náttúrunnar hendi. Hann hefur þurft að eiga við hina hrútana í fjárhúsinu, eins og gengur og gerist, en sökum hornsins hefur hann átt erfiðara en aðrir með að verja sig. Erla segir hann samt hafa það ágætt og að hann virðist ekki þjakaður eða þjáður vegna sköpunar sinnar. Hann sé duglegur að éta og berst eins og hinir hrútarnir að komast að garðanum og fá sér hey. „Hann er ekkert útundan, þannig séð. En á fengitímanum þá fékk hann smá skrámur í samskiptum sínum við hina hrútana.“

En Einhyrningur, eins sérstakur og hann er, er ekki vænlegur til undaneldis og því stóð til að fella hann í haust.

Erla segir að vel komi til greina að selja einhverjum Einhyrning, sýni því einhver áhuga. Að ýmsu verði þó að huga þar sem sauðfjárvarnir séu strangar í landinu. „Ég hef ekkert hugsað mikið um þetta, hvort þetta sé mögulegt. Matvælastofnun verður að svara því.“

Erla segir að sökum frægðar Einhyrnings sé ef til vill ekki skrítið að fólk velti því fyrir sér hvort að hægt sé að leyfa honum að lifa. „Ég skil vel að einhverjir vilji að Einhyrningur fái framhaldslíf.“

Einhyrningur. Hann hefur skrapast í framan eftir barning hinna hrútana.
Einhyrningur. Hann hefur skrapast í framan eftir barning hinna hrútana. Ljósmyndir/Erla Þórey

Ekki hægt að flytja Einhyrning í Húsdýragarðinn

Tómas Ó. Guðjónsson, líffræðingur og forstöðumaður Húsdýragarðsins, segir ekki gerlegt að flytja Einhyrning þangað. Það sé stranglega bannað að flytja sauðfé frá heimahögum hrútsins til höfuðborgarinnar. Að auki falli það ekki að stefnu Húsdýragarðsins að hafa dýr á borð við Einhyrning til sýnis. Tómas segist hins vegar skilja áhuga fólks á þessum sérstæða hrúti mæta vel. Í gær hafi t.d. komið aldraður maður í Húsdýragarðinn og boðist til að kosta flutning Einhyrnings til Reykjavíkur.

Smithættan heftir för hrútsins

Skýringarnar á banni á flutningi hrútsins felast í smitvörnum gegn sauðfjársjúkdómum. Landinu er skipt í varnarhólf og bannað er, nema með einstaka undantekningum að flytja lifandi dýr yfir varnarlínur. Samkvæmt upplýsingum Matvælastofnunar (MAST) eru einu undantekningarnar þær að flytja má líflömb frá örfáum varnarhólfum þar sem sjúkdómastaðan er þannig að ekki er talin hætta á smiti af flutningi.

Einu undanþágurnar sem eru veittar frá þessu eru á flutningi á fullorðnum gripum sem nota á til kynbóta. Er þá leyfður flutningur en aðeins beint á kynbótastöðvar. Reglurnar leyfa ekkert annað, samkvæmt svörum sem mbl.is fékk frá MAST. Þetta er ástæðan fyrir því að ekki er leyfilegt að flytja Einhyrning úr sínu varnarhólfi í Landbroti.

En flytja má hann innan hólfsins. Því er ekki öll nótt úti enn fyrir þennan einstaka hrút.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka