Færri ferðamenn með hærri skatti

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Tilgangurinn með því að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna er ekki síst sá að draga úr fjölgun ferðamanna hér á landi. Þetta hefur Ríkisútvarpið eftir Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra. Hvorki sé gott fyrir hagkerfið né greinina sjálfa að hún vaxi of hratt.

Ferðaþjónustufyrirtæki hafa gagnrýnt hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónstuna úr 14% í 22,5% harðlega en Benedikt segir ljóst að grein sem vaxi um tugi prósenta á ári þurfi ekki á sérstökum ríkisstuðningi að halda í formi lægri skatta en aðrar greinar þurfi að búa við.

Fjármálaráðherra segir útreikninga ráðuneytis hans ekki benda til þess að skattahækkunin stöðvi fjölgun ferðamanna en muni hins vegar líklega hægja á henni. Mikil fjölgun ferðamanna hafi hafy verulega áhrif á allt hagkerfið og meðal annars leitt til sterkara gengis krónunnar.

Skattahækkunin sé að þessu leyti efnahagsleg aðgerð en ekki einungis til þess að auka tekjur ríkisins. Tekjurnar af hærri skatti séu þó ekki eyrnamerktar uppbyggingu ferðamannastaða. Hins vegar sé ljóst að verja þurfi meira skattfé til þess að bæta aðbúnað á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert