„Ætlar Björt framtíð að láta bjóða sér þetta? Handjárna sig inn í þessa nýfrjálshyggju?“ spurði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og beindi orðum sínum til Óttars Proppé, heilbrigðisráðherra og formanns Bjartrar framtíðar.
Steingrímur sagði flokk Óttars hafa fengið útreið í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Til að mynda færu tölur um aukningu í heilbrigðismálum beint í stofnkostnað þannig að eftir að það væri frádregið stæði væntanlega eftir niðurskurður. Auk þess spurði hann ráðherra um starfsemi einkasjúkrahússins Klíníkurinnar í Ármúla.
„Hefur það nokkru breytt um það sem hæstvirtur ráðherra gaf út hér á dögunum, að ráðuneytið muni ekki heimila Sjúkratryggingum að gera samning við einkasjúkrahúsið um kaup á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, þ.e. ekki gera samning um að þar verði sett á fót legudeild til allt að fimm daga og farið út í sérhæfðar skurðaðgerðir?“ spurði Steingrímur og sagði mikilvægt að fá þetta á hreint.
„Það hefur ekki orðið breyting á ákvörðun minni að það stæði ekki til að fela Sjúkratryggingum Íslands að gera sérstakan samning við Klíníkuna,“ sagði Óttarr. Hann sagði ráðuneyti starfa eftir lögum og sérfræðingar ráðuneytisins túlki það svo að það sé ekki gert ráð fyrir því að veitt sé sérstakt starfsleyfi.
„Það er ekki í takt við það sem ég vil og ég ætla að setja vinnu til að skoða þetta; að lögum verði breytt eða þau skýrð,“ bætti Óttarr við.
Hann sagði ennfremur að Björt framtíð væri hluti af ríkisstjórn og muni styðja aðgerðir hennar og ætli að taka ábyrgð. Ólíkt því sem Steingrímur sagði fullyrti Óttarr að verið væri að spýta í lófana í heilbrigðismálum.