Ekki verður skylt að fjölga fulltrúum í borgarstjórn Reykjavíkur úr 15 í að lágmarki 23 við kosningarnar á næsta ári, verði stjórnarfrumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögum að lögum. Breytingin kemur þó ekki í veg fyrir að borgarstjórn ákveði sjálf að fjölga fulltrúum.
Ákveðinn rammi um fulltrúa í sveitarstjórnum var ákveðinn í sveitarstjórnarlögum frá árinu 2011 og áttu ákvæðin að taka gildi við sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Þar er kveðið á um að borgarfulltrúar í Reykjavík, sem er með yfir 100 þúsund íbúa, skuli vera á bilinu 23 til 31 en þeir eru nú 15. Það þýðir fjölgun um að lágmarki 8 fulltrúa á næsta ári. Jón Gunnarsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, segir að mjög skiptar skoðanir hafi verið um þessi ákvæði á sínum tíma. Frumvarpið mæti þeim gagnrýnisröddum.
„Ég tel eðlilegt að þótt við setjum ramma utan um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa út frá íbúafjölda eigi að vera meiri sveigjanleiki í því og ákvörðunin sé í höndum sveitarfélaganna sjálfra. Sum hafa verið að fækka fulltrúum til að geta frekar greitt þeim sem sinna þessum störfum eitthvað hærri þóknanir,“ segir Jón og leggur um leið áherslu á að borgarstjórn Reykjavíkur sé heimilt, innan ramma laganna, að fjölga borgarfulltrúum.
Ráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í gær og var því vísað til nefndar. Nokkrir þingmenn tóku til máls, aðallega þingmenn Vinstri grænna, og gagnrýndu frumvarpið.
Steingrímur J. Sigfússon sagði að með frumvarpinu væri verið að þrengja að fulltrúalýðræðinu, þó aðallega hjá Reykjavíkurborg. Eðlilegt væri að hafa fleiri fulltrúa í stærri sveitarfélögum til að fjölbreytni endurspeglist í umræðum, stefnumótun og stjórnsýslu sveitarfélaganna.