„Þetta voru bara mannleg mistök sem að við hörmum,“ segir Þórunn Egilsdóttir, þinflokksformaður Framsóknarflokksins. „Þetta fór hér í gegn án þess að við áttuðum okkur á þessu.
Guðlaugur Sverrisson, fyrrverandi stjórnarformaður Ríkisútvarpsins, var í gær kjörinn í stjórn RÚV samkvæmt tilnefningu Framsóknarflokksins degi eftir að Alþingi samþykkti kjör Stefáns Vagns Stefánssonar í stjórnina samkvæmt tilefningu flokksins. En Stefán Vagn gat ekki tekið sæti í stjórninni vegna stöðu sinnar sem kjörinn sveitarstjórnarfulltrúi.
Þórunn segir þingmenn hafa verið mjög meðvitaða um mál Marðar Árnasonar, sem tók sæti á þingi sem varaþingmaður á sama tíma og hann átti sæti í stjórn RÚV árið 2015. „Við vorum vel meðvituð um það, en þetta bara fór fram hjá okkur því miður. Þetta voru bara mannleg mistök,“ segir hún.
„Við fögnum því bara að Guðlaugur sé tilbúinn að sitja áfram. Hann hefur staðið sig afskaplega vel og verið góður fulltrúi.“
Ennfremur var Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Viðreisnar, kjörin til setu í stjórn RÚV í gær samkvæmt tilnefningu Viðreisnar í stað Kristínar Maríu Birgisdóttur, forseta bæjarstjórnar Grindavíkur. Líkt og í tilfelli Stefáns þá gat Kristín ekki tekið sæti í stjórninni stöðu sinnar vegna.
Mbl.is greindi einnig frá því árið 2015 að fjölmiðlanefndi myndi taka til skoðunar setu Kristins Dags Gissurarsonar, varabæjarfulltrúa Framsóknarflokksins í Kópavogi, í stjórn RÚV eftir að Kristinn sat fund bæjarstjórnar Kópavogs þann 13. október það ár.
Í 9. grein laga um Ríkisútvarpið segir að kjörnir fulltrúar til Alþingis og sveitarstjórna séu ekki kjörgengir í stjórn Ríkisútvarpsins.