„Fyrst og fremst út af þessum kosningasvikum sem þarna áttu sér stað. Það var búið að lofa því fyrir kosningar að ætti ekki hreyfa við þessu og síðan eru ekki liðnir nema örfáir mánuðir og þá er búið að svíkja það. Með því er líka verið að ganga gegn samþykktum landsfundar sem ég tel líka mjög alvarlegt,“ segir Þráinn Lárusson, hótelhaldari á Hallormsstað og í Valaskjálf á Egilsstöðum, í samtali við mbl.is en hann hefur sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að leggja hærri virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna.
Þráinn hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi, verið varaformaður kjördæmisráðs, formaður fulltrúaráðs og formaður sjálfstæðisfélagsins á svæðinu. Hann greindi frá úrsögn sinni úr flokknum á Facebook-síðu sinni í dag. Gagnrýnir hann harðlega framgöngu Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, sem hefur sagt að ekki standi til að falla frá áformunum. Bendir hann á að landsfundur flokksins sé æðsta vald hans og leggi þær línur sem síðan séu lagðar til grundvallar þeirri stefnu sem boðuð sé fyrir kosningar.
„Til hvers er landsfundur eða grasrótin ef ekkert á að fara eftir þessu?“ spyr Þráinn. „Það var talað mjög ákveðið um þetta í kosningabaráttunni á meðan aðrir flokkar töluðu mjög með því að þetta yrði gert. Það er alveg ljóst að þúsundir atkvæða í þessum bransa fóru til Sjálfstæðisflokksins. Ég á alveg eins von á að það fylgi hrynji af flokknum. ég er landsbyggðarmaður og með minn rekstur úti á landi og þetta hefur gríðarleg áhrif á minn rekstur. Ég get ekki verið áfram í flokki sem gerir svona.“