Snjó kyngir niður með snöggum hitaskilum

Snjó kyngdi niður á höfuðborgarsvæðinu í hádeginu.
Snjó kyngdi niður á höfuðborgarsvæðinu í hádeginu. mbl.is/Hallur

Það hafa væntanlega margir íbúar á suðvesturhorninu rekið upp stór augu þegar snjó tók að kyngja niður á tiltölulega hlýjum degi, viku eftir sumardaginn fyrsta. Theodór Freyr Hervarsson, veðurfræðingur á vakt á Veðurstofunni segir snörp kuldaskil hafa gengið inn á landið og rigning þar með umbreyst skyndilega í slyddu og snjókomu.

„Skilin voru úti fyrir Keflavík og á Snæfellsnesi um ellefuleytið og núna um hádegið í Reykjavík og við þetta snarféll hitinn niður um 5-7 gráður,“ segir Theodór. Við þetta hafi rigning skyndilega breyst yfir í slyddu og snjókomu. Hann segir kuldaskilin vissulega hafa verið fyrirséð, en þó sé víða meiri snjór á sumum stöðum en slyddan sem spáð hafði verið.

Theodór nefnir sem dæmi að í Keflavík hafi hiti í morgun mælst 7 stig. „Þar fór hann niður í tvær gráður og Í Ólafsvíkurhöfn fór hitinn úr átta stigum í eitt.“ Sjálfur fylgdist hann með á skjá er það gjörbreytti um átt í Keflavík á 2-3 mínútum og snöggkólnaði.

Skörp hitaskil á borð við þessi eru ekkert einsdæmi og segir Theodór snjóinn ekki munu ná að festa á jörðu. „Væntanlega erum við að horfa á að það geti haldið áfram að snjóa næsta klukkutímann og svo styttir bara upp.“

Næsti sólarhringur verður þó ekki hlýr samkvæmt spá, en þó er ekki von á frosti eða frekari snjókomu.

„Það hlýnar aftur í nótt og fer að rigna í fyrramálið. Það gæti þó gert slyddu á Reykjanesinu seinni partinn á morgun og sömuleiðis gæti gert slyddu á sunnanverðu landinu annað kvöld. Í framhaldinu erum við síðan að detta inn í austanátt og þá fer að hlýna hjá okkur hægt og bítandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert