Fjölgun fóstureyðinga ekki óvenjuleg

Í fyrra voru framkvæmdar 1.021 fóstureyðing hér á landi. Á …
Í fyrra voru framkvæmdar 1.021 fóstureyðing hér á landi. Á kvennadeild Landspítalans býðst konum að koma í viðtal hjá félagsráðgjafa fyrir og eftir fóstureyðingu. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er yfirleitt erfið ákvörðun fyrir konur að fara í fóstureyðingu. Það leikur sér enginn að því að ákveða slíkt,“ segir Helga Sól Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á Landspítalanum. Starf Helgu felst m.a. í því að veita konum og mökum þeirra ráðgjöf og stuðning.

 Á síðasta ári var framkvæmd 1.021 fóstureyðing hér á landi, tæplega 100 fleiri en 2015. Aldrei hafa fleiri fóstureyðingar verið gerðar. Einnig var fjölgun miðað við fjölda lifandi fæddra barna á sama tímabili. Í fyrra voru framkvæmdar um 253 fóstureyðingar á hverja 1.000 lifandi fædda.

Á árinu 2016 voru framkvæmdar 13 fóstureyðingar miðað við hverjar 1.000 konur á frjósemisaldri. Til samanburðar voru árið 2015 framkvæmdar 13,3 slíkar aðgerðir á hverjar þúsund konur á þessum aldri, 15-49 ára, á Norðurlöndunum. Í Svíþjóð t.d. var hlutfallið töluvert hærra en á Íslandi eða 17,6.

Helga Sól Ólafsdóttir félagsráðgjafi.
Helga Sól Ólafsdóttir félagsráðgjafi.

Alltaf sveifla á milli ára

Fóstureyðingar hafa síðustu ár verið á bilinu 900-987. Sveiflan er oft þónokkur á milli ára. Helga segir að fjölgunin á síðasta ári sé því ekki mjög óvenjuleg. Hún bendir hins vegar á að ef að hún haldi áfram í nokkur ár í röð þurfi að leita frekari skýringa.

Þegar kona er að velta því fyrir sér hvort hún eigi að fara í fóstureyðingu er tekið við hana símaviðtal á kvennadeild Landspítalans. Öllum sem hringja er svo boðið að fara í viðtal hjá félagsráðgjafa. Helga Sól segir að aðstæður fólks sem er í þessum sporum séu mjög misjafnar. Sumir séu ákveðnir í að gangast undir aðgerðina en aðrir vilji ræða frekar málin. „Það stendur öllum til boða að fara til félagsráðgjafa,“ ítrekar Helga.

Virðing borin fyrir einstaklingnum

Hún segir að í því viðtali sé farið með konunni og þeirra aðstandendum ef svo ber undir, yfir aðstæður viðkomandi og valmöguleika sem eru í boði. „Það sem skiptir máli er að bera virðingu fyrir einstaklingnum og því að þetta er ákvörðun sem hann þarf að taka. Það er sjálfsákvörðunarréttur hverrar manneskju, hvernig hún vill haga sínu lífi.“

Í kjölfar fóstureyðingarinnar er fólki boðið upp á frekari stuðning félagsráðgjafa. Helga Sól segir ekki marga þiggja það. Að taka ákvörðun um aðgerðina sé yfirleitt erfiðasta skrefið. „Það er það sem er erfiðasta við þetta allt saman og mesti álagstíminn í lífi fólks. Þá þarf það á miklum stuðningi að halda.“

Helga hóf störf sem félagsráðgjafi árið 1998 á kvennadeild Landspítalans. Hún starfaði sem félagsráðgjafi í Svíþjóð í nokkur ár í sama málaflokki og kom aftur til starfa á kvennadeildinni árið 2012. Hún segist ekki finna nokkurn mun á því nú og við upphaf starfsferils síns hversu erfið ákvörðun fóstureyðing er fyrir fólk. „Þó að umræðan sé mikil þá finn ég ekki mun á viðhorfi fólks sem er í þessum sporum.“

Aðgengi að getnaðarvörnum besta forvörnin

Helga Sól segir að vilji stjórnvöld og samfélagið raunverulega fækka fóstureyðingum sé besta leiðin að auka og einfalda aðgengi að langtímagetnaðarvörnum. Rannsóknir sýni að slíkt beri helst árangur. Með langtímagetnaðarvörnum á hún m.a. við stafinn svokallaða og hormónalykkjuna. Helst vill hún sjá að slíkar varnir standi fólki undir 25 ára aldri til boða ókeypis. „Ef vilji er til að fækka fóstureyðingum þá ætti að fara þessa leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert