Fór með spariféð í að greiða laun

Gunnar Smári Egilsson.
Gunnar Smári Egilsson. mbl.is/Eggert

„Ég lagði í þessa tilraun allt mitt sparifé og geng ekki frá þessum leik með einhver verðmæti sem ég hef tekið frá starfsfólkinu eða öðrum, eins og helst má skilja á skrifum Inga Freys. Nú þegar bankinn hefur tekið til sín það sem hann hafði tryggt með veðum munu allar eigur búsins, þegar félagið fer í gjaldþrot, renna til starfsmanna. Þeir hafa forgangskröfur í allar eigur blaðsins og útistandandi reikninga,“ segir Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi eiganda og ritstjóra Fréttatímans, á Facebook-síðu sinni þar sem hann svarar Inga Frey Vilhjálmssyni sem starfaði sem blaðamaður á blaðinu um rekstrarerfiðleika þess.

Frétt mbl.is: Launahækkun rétt áður en allt fór í óefni

Gunnar Smári segist ekki hafa leynt neinn neinu um stöðu Fréttatímans á meðan ítrekaðar tilraunir hafi staðið yfir til þess að bjarga rekstrinum. Þegar hann hafi tekið við blaðinu hafi það verið rekið með tapi en reynt hafi verið að snúa því við með fjölgun útgáfudaga og öflugari ritstjórn. Það hafi hins vegar ekki orðið raunin. Sömu örlög hafi beðið annarra slíkra tilrauna. Vonir hafi þó ítrekað kviknað um að hægt yrði að bjarga rekstrinum og tryggja áframhaldandi starfsemi. Þær hafi fyrst og fremst verið í höndum lánadrottna Fréttatímans og annarra hluthafa og hann hafi í raun ekki haft mikla aðkomu að þeim málum eða vitað mikið um stöðuna enda hafi lánadrottnar óskað eftir því að hann viki frá störfum fyrir blaðið.

„Ef ég hefði vitað að tilraunir til að bjarga blaðinu hefðu ekki gengið upp, hefði ég náttúrlega kosið að loka blaðinu fyrr. Það hefði sparað fjölda fólks fyrirhöfn og öðrum fjármuni. Það er ekki svo að rekstrarvandi Fréttatímans sé einsdæmi meðal fjölmiðlafyrirtækja. Þau standa öll illa. Við tókum við Fréttatímanum í taprekstri og reyndum að styrkja hann með fjölgun útgáfudaga, öflugri ritstjórn og aukinni útgáfu á vefnum. Þetta gekk hins vegar ekki upp,“ segir Gunnar Smári. Hann hefði vitanlega getað gert margt betur. Ingi Freyr gagnrýnir Gunnar einnig fyrir undirbúning að stofnun Sósíalistaflokks Íslands á sama tíma.

Fréttatíminn og Sósíalistaflokkurinn með sama markmið

Gunnar Smári segir hins vegar að þetta fari saman. „Fyrir mér var Fréttatíminn eitt af tólunum sem almenningur hafði til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Blaðið setti mörg mál mikilvæg almenningi á dagskrá samfélagsumræðunnar og hafði, að ég held, þó nokkur áhrif þá fimmtán mánuði sem blaðið kom út eftir endurnýjun. Ég tel enga ástæðu til að hætta þeirri baráttu þótt ekki hafi tekist að finna rekstrarlegar forsendur undir Fréttatímann. Starf mitt á blaðinu sannfærði mig um að til að hafa áhrif á samfélagið er ekki nóg að segja frá ágöllum þess heldur er mikilvægt að fólk taki virkan þátt til að breyta samfélaginu.“

Gunnar Smári segist gera sér grein fyrir því að þátttaka hans í opinberri umræðu gefi Inga Frey tilefni til þess að gagnrýna hann. „Hann myndi ólíklega skrifa hana ef ég hefði kosið að draga mig í hlé, flytja upp í sveit og láta af öllum afskiptum að samfélaginu. En það verður bara að hafa það. Ingi Freyr telur rétt að ég þegi í nokkur ár. Ég virði það, en hlýt að hafa rétt til þess að virða þau tilmæli að vettugi. Gjaldþrot Fréttatímans er vont mál. Það kemur illa við marga, veldur óvissu í lífi starfsfólksins og lánardrottnar og birgjar tapa fé.“ Mestan fjárhagslegan skaða beri núverandi og fyrrverandi hluthafar í félaginu.

„Mestan tilfinningalegan skaða af þrotum blaðsins ber starfsfólkið sem þrátt fyrir að hafa lagt sig fram og gefið út frábært blað uppsker engan sigur og þarf að bíða uppgjörs á búinu eftir launagreiðslur, nokkrir vegna vinnu í mars, en aðrir til að fá laun út uppsagnarfrestinn. Því miður á ég ekki pening til að greiða þessi laun. Ég lagði restina af sparifé mínu í fyrirtækið fyrir þar síðustu mánaðamót til að borga launin þá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert