Starfsfólki Fréttatímans var í febrúar talað af því að taka atvinnutilboðum frá öðrum fyrirtækjum, boðin launahækkun og sagt að rekstur Fréttatímans og framtíð væri örugg. Þetta var um tveimur mánuðum áður en reksturinn var stoppaður, Gunnar Smári yfirgaf félagið og hóf að tala fyrir stofnun sósíalistaflokks og starfsfólk var skilið eftir án þess að fá greidd laun fyrir marsmánuð.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í pistli Inga Freys Vilhjálmssyni, blaðamanni á Fréttatímanum, á fréttasíðu Stundarinnar. Þar vandar hann Gunnari Smára Egilssyni, fyrrverandi eiganda og ritstjóra blaðsins, ekki kveðjurnar. Ingi Freyr segir að Gunnar hafi sagt starfsmönnum eftir að rekstrarerfiðleikarnir urðu fjölmiðlaefni að félagið hafi verið í nauðvörn síðan í október á síðasta ári. Starfsmenn hafi því ekki fengið rétta mynd af rekstrarstöðu blaðsins á fyrri hluta ársins.
Í pistlinum gagnrýnir Ingi Freyr Gunnar Smára harðlega fyrir framgöngu sína í kringum rekstrarerfiðleikana og brotthvarf sitt og segir að þegar starfsmenn hafi ekki fengið greidd laun í þrjá daga hafi Gunnar Smári tilkynnt fjarveru sinni þann dag, en á sama tíma verið í beinni útsendingu á X-inu að ræða um stofnun nýs stjórnmálaflokks sem kenndi sig við sósíalisma og boðaði byltingu.
Segir Ingi Freyr að það „venjulega launafólk“ sem Gunnar Smári hafi talað fyrir í tengslum við pólitískar hugmyndir sínar, þá hafi hann horft fram hjá því að hafa rétt áður skilið við einmitt „venjulegt launafólk“ hjá Fréttatímanum sem hefði ekki fengið greidd laun og þyrfti nú að sækja hluta þeirra til ábyrgðasjóðs launa.
Þá bendir Ingi Freyr á að Gunnar Smári hafi verið tvísaga um brotthvarf sitt af blaðinu. Segir Ingi Freyr að hann hafi í raun verið fyrsti starfsmaðurinn til að yfirgefa fyrirtækið þegar í óefni stefndi og notaðist þá við þá ástæðu að hann væri að stofna stjórnmálaflok. Síðar hafi hann breytt sögunni þannig að hann hafi verið rekinn af stjórn félagsins, en þegar nánar var að gáð kom í ljós að hluthafar félagsins bentu enn á Gunnar Smára sem forsvarsmenn fyrirtækisins. „hluthafar fjölmiðlafyrirtækja benda starfsmönnum yfirleitt ekki á að tala við útgefendur og eða ritstjóra sem búið er að reka,“ segir Ingi Freyr í pistlinum og bætir við að niðurstaðan hljóti að vera að Gunnar Smári hafi sjálfur tekið ákvörðun um að hætta störfum þegar í óefni stefndi.
„Eftir sitja hluthafar, kröfuhafar og starfsmenn með fjárhagslegt tap af og hinir síðastnefndu eru í algjörri óvissu um tekjuöflun sína á næstu mánuðum,“ segir Ingi Freyr.
mbl.is hefur ítrekað undanfarna daga reynt að ná sambandi við forsvarsmenn Fréttatímans, en án árangurs.