Slegið var í gegn í Vaðlaheiðagöngum seinni partinn í dag. Fjármálaráðherra og fjölmargir núverandi og fyrrverandi þingmenn voru á staðnum auk þess sem almenningi var boðið að fylgjast með. Var farið inn austan megin og eftir að slegið var í gegn var gengið yfir hauginn sem var sprengdur og tekist í hendur vestan megin.
Kristján Möller, fyrrverandi ráðherra samgöngumála, segir í samtali við mbl.is að þetta sé stórkostleg stund. „Maður segir bara loksins loksins!“ segir hann og bætir við að margt bagalegt hafi komið upp á við vinnuna. „Það hefur mætt okkur allt sem getur mætt okkur við jarðgangnagerð,“ segir hann og nefnir heitt og kalt vatn sem hafi flætt úr göngunum, hrun og léleg setlög.
„Það er afrek að þetta var klárað miðað við allt sem hefur mætt okkur, en ég er mest þakklátur að engin slys hafi orðið,“ segir Kristján og rifjar upp þegar hrun varð austan megin í göngunum og þau fylltust af vatni. Segir hann það hafa verið guðsmildi að enginn hafi slasast.
Kristján var ráðherra samgöngumála árin 2007 til 2010 þegar unnið var að undirbúningsvinnu fyrir göngin í ráðuneytinu. Undirbúningur fyrir framkvæmdirnar sjálfar hófst svo 2012 og fyrsta sprengingin var í júlí 2013.
Nú tekur við 15-16 mánaða lokafrágangur og segir Kristján að búast megi við opnun gangnanna á haustmánuðum á næsta ári.