Hafnarfjarðarbær hefur ákveðið að gera samstarfssamning við félagið Villiketti um að koma villiköttum í bænum til hjálpar.
Sú hjálp felst meðal annars í því að fanga og gelda læður til að halda stærð villikattastofnsins stöðugri. Um er að ræða tilraunasamning til eins árs en Hafnarfjörður er fyrsta sveitarfélagið sem gerir slíkan samning við Villiketti.
„Í gegnum tíðina hefur villiköttunum verið lógað ef það hefur verið orðið of mikið af þeim, sú aðferð er umdeild í dag og því leitum við nýrra leiða,“ segir Helga Ingólfsdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðarbæjar, í umfjöllun um átak þetta í Morgunblaðinu í dag.