Á annað hundrað biðu eftir skópari

Rjómahvítu skórnir frá Adidas eru einkar vinsælir.
Rjómahvítu skórnir frá Adidas eru einkar vinsælir. Ljósmynd/Ólafur Alexander Ólafsson

Hátt í tvö hundruð manns biðu fyr­ir utan versl­un­ina Húrra Reykja­vík við Hverf­is­götu í nótt til að geta geta keypt nýju út­gáf­una af Yeezy-skón­um frá Adi­das. Mik­il eft­ir­vænt­ing er eft­ir skón­um sem eru seld­ir í mjög tak­mörkuðu upp­lagi á heimsvísu. 

Fyrst var greint frá mál­inu á frétta­vef Rík­is­út­varps­ins. 

Sindri Jens­son, ann­ar eig­andi Húrra Reykja­vík, seg­ir að fyrstu kaup­end­ur hefðu mætt um fjög­ur­leytið síðdeg­is í gær. „Fólk var með tjöld og svefn­poka með sér. Við erum með grind­ur til að stúka af röðina, síðan bætt­ist í og um miðnætti náði röðin langt upp að Lauga­vegi. Þegar við mætt­um í morg­un var hún kom­in upp að Kirkju­hús­inu á horn­inu á Lauga­vegi,“ seg­ir Sindri.

Fólkið sem beið í röðinni drap tím­ann með því að hlusta á tónlist eða horfa á kvik­mynd­ir í far­tölv­um. Bíl­um var lagt þvers og kurs eft­ir Hverf­is­göt­unni og skipt­ist fólk á að hlýja sér í bíl­un­um. Megnið af hópn­um voru Íslend­ing­ar en ein­staka út­lend­ing­ar freistuðust til að næla sér í par. 

„Þetta voru lík­lega 95% Íslend­ing­ar. Það voru ein­hverj­ir ferðamenn sem sáu þetta á In­sta­gram og við erum búin að fá mikla um­fjöll­un á er­lend­um síðum sem hafa birt mynd­ir frá þessu. Það var gam­an að spjalla við þá, þeim fannst ótrú­legt að vera komn­ir alla leið til Íslands og geta fengið Yeezy-skó.“

Þegar hæst lét náði biðröðin upp að Laugavegi.
Þegar hæst lét náði biðröðin upp að Lauga­vegi. Ljós­mynd/​Húrra Reykja­vík

Hann met­ur að um 150 til 200 manns hefðu beðið fyr­ir utan herra­búðina og 30 til 40 stelp­ur fyr­ir utan dömu­búðina þegar búðin opnaði klukk­an níu í morg­un. Var hópn­um þá hleypt inn í holl­um en vegna þess hve upp­lagið er lítið er mis­jafnt hvort fólk kaupi skóna til að ganga í þeim eða til að end­ur­selja. 

„Yf­ir­burðastór hluti er að kaupa skóna til að vera í þeim en það eru alltaf ein­hverj­ir sem eru að kaupa til að end­ur­selja og þeir geta tvö­faldað verðgildið.

Selj­ast alltaf upp

Skórn­ir kall­ast Yeezy Boost 350 V2 Cream White og eru afrakst­ur af sam­starfi Adi­das og tón­list­ar­manns­ins Kanye West en Húrra Reykja­vík er eina versl­un­in á Íslandi sem hef­ur umboð til að selja skóna. 

Sam­kvæmt góðum heim­ild­um eru um 35 þúsund pör í heim­in­um. Adi­das hef­ur verið að senda okk­ur slatta af pör­um vegna þess að þau selj­ast alltaf upp hjá okk­ur. Þau eru að klár­ast núna, það voru ör­fá­ar skrýtn­ar stærðir eft­ir,“ seg­ir Sindri. Hann er ekki klár á því hvenær næsta upp­lag berst til búðar­inn­ar. 

„Málið með Yeezy-pró­gramið er að það er aldrei vitað hvaða skór eru næst­ir eða í hvaða búðum þeir eru seld­ir.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert