Á annað hundrað biðu eftir skópari

Rjómahvítu skórnir frá Adidas eru einkar vinsælir.
Rjómahvítu skórnir frá Adidas eru einkar vinsælir. Ljósmynd/Ólafur Alexander Ólafsson

Hátt í tvö hundruð manns biðu fyrir utan verslunina Húrra Reykjavík við Hverfisgötu í nótt til að geta geta keypt nýju útgáfuna af Yeezy-skónum frá Adidas. Mikil eftirvænting er eftir skónum sem eru seldir í mjög takmörkuðu upplagi á heimsvísu. 

Fyrst var greint frá málinu á fréttavef Ríkisútvarpsins. 

Sindri Jensson, annar eigandi Húrra Reykjavík, segir að fyrstu kaupendur hefðu mætt um fjögurleytið síðdegis í gær. „Fólk var með tjöld og svefnpoka með sér. Við erum með grindur til að stúka af röðina, síðan bættist í og um miðnætti náði röðin langt upp að Laugavegi. Þegar við mættum í morgun var hún komin upp að Kirkjuhúsinu á horninu á Laugavegi,“ segir Sindri.

Fólkið sem beið í röðinni drap tímann með því að hlusta á tónlist eða horfa á kvikmyndir í fartölvum. Bílum var lagt þvers og kurs eftir Hverfisgötunni og skiptist fólk á að hlýja sér í bílunum. Megnið af hópnum voru Íslendingar en einstaka útlendingar freistuðust til að næla sér í par. 

„Þetta voru líklega 95% Íslendingar. Það voru einhverjir ferðamenn sem sáu þetta á Instagram og við erum búin að fá mikla umfjöllun á erlendum síðum sem hafa birt myndir frá þessu. Það var gaman að spjalla við þá, þeim fannst ótrúlegt að vera komnir alla leið til Íslands og geta fengið Yeezy-skó.“

Þegar hæst lét náði biðröðin upp að Laugavegi.
Þegar hæst lét náði biðröðin upp að Laugavegi. Ljósmynd/Húrra Reykjavík

Hann metur að um 150 til 200 manns hefðu beðið fyrir utan herrabúðina og 30 til 40 stelpur fyrir utan dömubúðina þegar búðin opnaði klukkan níu í morgun. Var hópnum þá hleypt inn í hollum en vegna þess hve upplagið er lítið er misjafnt hvort fólk kaupi skóna til að ganga í þeim eða til að endurselja. 

„Yfirburðastór hluti er að kaupa skóna til að vera í þeim en það eru alltaf einhverjir sem eru að kaupa til að endurselja og þeir geta tvöfaldað verðgildið.

Seljast alltaf upp

Skórnir kallast Yeezy Boost 350 V2 Cream White og eru afrakstur af samstarfi Adidas og tónlistarmannsins Kanye West en Húrra Reykjavík er eina verslunin á Íslandi sem hefur umboð til að selja skóna. 

Samkvæmt góðum heimildum eru um 35 þúsund pör í heiminum. Adidas hefur verið að senda okkur slatta af pörum vegna þess að þau seljast alltaf upp hjá okkur. Þau eru að klárast núna, það voru örfáar skrýtnar stærðir eftir,“ segir Sindri. Hann er ekki klár á því hvenær næsta upplag berst til búðarinnar. 

„Málið með Yeezy-prógramið er að það er aldrei vitað hvaða skór eru næstir eða í hvaða búðum þeir eru seldir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert