Ákvæðið um þjóðaratkvæði fallið úr gildi

mbl.is/Hjörtur

Heimild sem sett var inn í stjórnarskrá lýðveldisins fyrir þingkosningarnar 2013 til bráðabirgða, þar sem gert er ráð fyrir að hægt verði að breyta stjórnarskránni í krafti þjóðaratkvæðagreiðslu, er fallin úr gildi en heimildin rann út á miðnætti.

Hefðbundin leið til þess að breyta stjórnarskránni er að rjúfa þurfi þing eftir að slík breyting hefur verið samþykkt af meirihluta þingmanna og boða til kosninga. Meirihluti nýkjörins þings þarf þá einnig að samþykkja breytinguna svo hún taki gildi.

Samið var hins vegar um það fyrir kosningarnar 2013 að slíkt ákvæði yrði sett í stjórnarskrána til þess að ekki þyrfti að bíða til þarnæstu þingkosninga en alla jafna hefur stjórnarskránni verið breytt samhliða reglubundnum þingkosningum.

Samkomulagið kom til í kjölfar þess að þáverandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tókst ekki að koma í gegnum þingið frumvarpi að nýrri stjórnarskrá byggðu á tillögum stjórnlagaráðs.

Hins vegar hefur verið ljóst frá því á síðasta ári að ekki kæmi til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu enda hefði til þess þurft að samþykkja á Alþingi frumvarp um breytingar á stjórnarskránni fyrir rúmum sex mánuðum. Það var hins vegar ekki gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert