Íslenskir sjúklingar „blóðmjólkaðir“

Fjöldafundur í Reykjavík, 1. maí 2016.
Fjöldafundur í Reykjavík, 1. maí 2016. mbl.is/Árni Sæberg

Á Íslandi eru sjúklingar blóðmjólkaðir og tekjulind bæði ríkisins og einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja. Þetta segir í 1. maí ávarpi Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Þar segir einnig að bakvið „hið meinta veisluborð“ leynist ýmsir váboðar.

„Í hverri einustu viku heyrum við af fárveiku fólki sem þarf að greiða svimandi reikninga fyrir læknisþjónustu sem væri því að kostnaðarlausu ef það byggi í öðrum Evrópulöndum. Þjóðarsjúkrahúsið er í stöðugum vandræðum að fjármagna þjónustu sína ár eftir ár á meðan stöðug umræða er um að afhenda hluta hennar til einkaaðila,“ segir m.a. í harðorðu ávarpinu.

Þar segir frá því hvernig eldri hjónum sé stíað sundur, skólakerfið fjársvelt og fólk án möguleika á að eignast húsnæði eða leigja. „Er þetta í lagi, spyrjum við á baráttudegi launafólks 1. maí,“ segir í ávarpinu.

„Það er undarleg hagfræði hjá stjórnmálamönnum, í landi þar sem allt flýtur í peningum, ríkið að verða skuldlaust og atvinnuvegirnir hafa blómstrað undanfarin ár, að halda því fram að ekki sé hægt að standa undir gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, skólakerfi, vegum landsins og öryggi landsmanna.

Verkalýðshreyfingin hlýtur að staldra við í þessu ástandi og spyrja áleitinna spurninga um hvort það sé eðlilegt að misjafnir sauðir í atvinnurekendastétt eigi að hafa öll ráð í hendi sér gagnvart því fólki sem heldur uppi þjóðfélaginu með vinnu sinni.“

Fulltrúaráðið segir íslenska sjúklinga „blóðmjólkaða.“
Fulltrúaráðið segir íslenska sjúklinga „blóðmjólkaða.“ mbl.is/Ómar Óskarsson

Fulltrúaráðið spyr m.a. hvort það sé eðlilegt að atvinnurekendur geti með ákvörðunum stjórna sjávarútvegsfyrirtækja svipt fólk í heilu byggðarlögununum atvinnu og lífsviðurværi. Hvort fólk eigi að sætta sig við það að lögin í landinu og skattlagning eigna og tekna séu með þeim hætti að eignir Íslendinga safnist á færri og færri hendur.

Ávarpinu lýkur þannig:

„Það er engin eftirspurn lengur eftir sveiflukenndum lífskjörum, þar sem atvinnurekendur og stjórnvöld ræna okkur lífsviðurværinu, atvinnunni og félagslegri stöðu einu sinni á áratug. Þess vegna var það svívirða að stjórnmálamenn og embættismenn skyldu komast upp með það, með verkfærinu kjararáði og lagasetningu á Alþingi, að stöðva þessa miklu umbótaaðgerð sem fólst í nýju íslensku samningalíkani að norrænni fyrirmynd. Verkalýðshreyfingin hefur oft sýnt, nú síðast með áformuðu átaki í húsnæðismálum, að afl hennar getur riðið baggamuninn þegar á reynir.

Er ekki kominn tími til að kreppa hnefana og láta finna fyrir sér?

Er tími hinna glötuðu tækifæra ekki orðinn nógu langur?

Er ekki tími til að launafólk skerpi átakalínur svo um munar?

Baráttudagur launafólks 1. maí er sannarlega dagurinn til að vinna ný heit um umbætur í þágu launafólks.“

Ávarpið í heild sinni má finna á vefsíðu ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert