Misskipting leiðir til harðnandi átaka

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/BSRB

Eftir því sem misskiptingin eykst munu átökin í samfélaginu harðna, segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í 1. maí ávarpi sínu á vefsíðu bandalagsins. Hún segir jöfnuð forsendu stöðugleika og örugga búsetu grundvallarhagsmunamál almennings.

Á meðan sumir eiga varla til hnífs og skeiðar og horfa á aðra greiða sjálfum sér margföld árslaun venjulegs launafólks í bónusa eða arð verður engin sátt og enginn stöðugleiki,“ segir Elín meðal annars.

Ef stjórnmálamönnum og öðrum sem tala um stöðugleika er einhver alvara verður að byrja á því að tryggja launafólki og almenningi öllum mannsæmandi lífskjör og draga úr misskiptingunni frekar en að halda áfram að auka ójöfnuð.“

Þá segir hún meira þurfa til í húsnæðismálum. Stjórnvöld og sveitarfélögin þurfi að taka höndum saman um að leysa vandann svo allir eigi kost á því að kaupa eða leigja á eðlilegum kjörum.

Átök um heilbrigðiskerfið

Elín segir nauðsynlegt að horfa til samspils atvinnulífs, skóla og heimila ef ætlunin sé að byggja upp norrænt velferðarsamfélag. Markmiðið verði að vera að draga úr árekstrum og álagi á fjölskyldufólk.

Fæðingarorlofið er mikilvægur þáttur í velferðarsamfélaginu. Íslenska fæðingarorlofskerfið hefur farið frá því að vera fyrirmynd annarra þjóða í að standa varla undir nafni. Ljóst er að gera þarf miklar úrbætur á kerfinu svo það skili markmiðum sínum um samvistir barns við báða foreldra og jafnrétti á vinnumarkaði.

Formaðurinn fjallar einnig um átök um rekstarform í heilbrigðiskerfinu og vitnar í rannsóknir sem sýna að fjórir af hverjum fimm landsmönnum vilja að heilbrigðiskerfið sé rekið fyrst og fremst af hinu opinbera.

Eins og landlæknir benti á nýlega eiga stjórnvöld afar erfitt með að stýra því fjármagni sem fer í einkarekinn hluta heilbrigðiskerfisins. Það þýðir að ef skera þarf niður í kerfinu er auðveldast að skera niður grunnþjónustu á borð við þá sem er veitt á Landspítalanum. Enda hefur það verið gert miskunnarlaust síðustu ár. Þessari þróun verðum við að snúa við.

Þá segir hún þá sem telja verkalýðshreyfinguna úrelta vanmeta verkefni hreyfingarinnar.

Þótt enginn skyldi vanmeta mikilvægi þess að tryggja lágmarksréttindi launafólks er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar miklu víðtækara. Það er enginn annar að taka upp hanskann fyrir launafólk, almenning í landinu. Það er hins vegar enginn skortur á þeim sem myndu gjarnan vilja geta farið sínu fram án þess að launafólk hafi málsvara sem berst fyrir réttindum þess.

Erindið í heild má finna á vefsíðu BSRB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka