„Hvað hefur breyst frá því fyrrverandi heilbrigðisráðherra lýsti því yfir að ekki ætti að greiða arð út úr nýjum heilsugæslustöðvum?“ spurði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Katrín beindi spurningunni til Bjarna Bendiktssonar forsætisráðherra.
„Hefur sem sagt orðið stefnubreyting frá síðustu ríkisstjórn í því að það sé eðlilegt og jafnvel jákvætt að greiða arð út úr velferðar- og heilbrigðisþjónustu?“ spurði Katrín og benti á að á síðasta kjörtímabili hafi verið stigið mjög stórt skref í auknum einkarekstri í íslenska heilbrigðiskerfinu þegar þáverandi heilbrigðisráðherra, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, tók þá ákvörðun að fela einkaaðilum að reka nýjar heilsugæslustöðvar.
„Sú ákvörðun var tekin án allrar lýðræðislegrar umræðu hér á Alþingi og þrátt fyrir að meiri hluta Íslendinga vilji að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera,“ sagði Katrín.
Bjarni sagðist ekki sjá ástæðu til að gera athugasemdir við það að menn sem reka einkafyrirtæki á heilbrigðissviðinu greiði sér út arð ef þeir skila afgangi í rekstri sínum, sama með hvaða hætti það er gert.
„Það á ekki bara við á þessu sviði heldur á svo mörgum öðrum sviðum þar sem ríkið hefur ákveðið að standa undir fjármögnun viðkomandi opinberrar þjónustu að skilyrði geta skapast til þess að það verði einhver afgangur í rekstrinum,“ sagði Bjarni.
„Ég held að það sé bara gamaldags aðferð ef maður horfist ekki í augu við eðlilegt rekstrarumhverfi. Það er bara sjálfsagður og eðlilegur hluti af einkarekstri almennt að ef menn skila einhverjum afgangi geti þeir greitt sér út arð,“ bætti forsætisráðherrann við.
„Það er bara gamaldags,“ sagði Katrín. „Hið róttæka tímarit Forbes birti greiningu á því að þetta væri nákvæmlega það sem ógnaði hinu bandaríska heilbrigðiskerfi, þ.e. hvatarnir væru orðnir rangir. Þegar hvatinn væri orðinn sá að heilbrigðisþjónusta væri rekin í ágóðaskyni væri líka meiri hvati til þess að hagræða á hinum röngu stöðum, hagræða þannig að það bitnaði á gæðum þjónustunnar,“ bætti Katrín við.
„Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar eða hvað veldur þeirri stefnubreytingu frá því sem við heyrðum frá síðasta heilbrigðisráðherra?“
Bjarni sagðist ekki kannast við að arðgreiðslur út úr heilsutengdri starfsemi á Íslandi sé eitthvert þjóðfélagsmein hér á landi.
„Það er nefnilega ástæða til að taka alveg sjálfstæða umræðu um þessi mál. Það er hægt að koma víða við. Setjum við sérstaka þröskulda t.d. hjá lyfsölum við hagnaði eða arðgreiðslu? Gerum við það hjá tannlæknum? Gerum við það hjá þeim sem selja lækningatæki? Þetta eru allt aðilar sem starfa á heilbrigðissviðinu.“