Óvíst um byggingu göngubrúar

Hér sést hvernig brúin mun líta út þegar horft verður …
Hér sést hvernig brúin mun líta út þegar horft verður úr norðaustri. Tölvuteikning/Vegagerðin

Enn vantar 136 milljónir króna til að fjármagna framkvæmdir við göngubrú yfir Markarfljót til móts við Húsadal í Þórsmörk. Áætlaður kostnaður er 220 milljónir króna en þegar er búið að tryggja alls 84 milljónir króna til verksins. Inn í þeirri áætlun er ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna vegabóta inn að brúarstæðinu eins og möguleg bílastæði við brúarsporðinn. Óvíst er hvenær framkvæmdir hefjast.

Árið 2011 var samþykkt á Alþingi þings­ályktun þar sem ríkisstjórninni var falið að undirbúa smíði göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal. 

Hönnun brúarinnar er lokið. Hún er byggð á verðlaunatillögu Eflu verkfræðistofu og Studio Granda frá árinu 2014. Brúin verður 158 metra löng og brúargólfið klætt með íslensku greni úr skógum Skógræktar ríkisins. 

Þórsmörk.
Þórsmörk. mbl.is/Árni Sæberg

Að verkefninu standa samtökin Vinir Þórsmerkur sem meðal annars fyrirtæki í ferðaþjónustu og sveitarfélagið eiga aðild að. Skúli H. Skúlason, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins Útivistar, einn fjölmargra vina Þórsmerkur er bjartsýnn á að fjármagn verði tryggt á þessu ári og að framkvæmdir geti hafist árið 2018. Hann segir óvíst á þessari stundu hvernig endanleg fjármögnun verði háttað en ekkert er útilokað í þeim efnum.

Við viljum vera á undan straumnum“

Skúli leggur áherslu á að áður en framkvæmdir hefjast á brúnni er brýnt að svæðið sé undir það búið að geta tekið á móti fólki. „Við viljum vera á undan straumnum,“ segir Skúli og bendir á í þessu samhengi að unnið sé að því að laga og styrkja þá göngustíga sem eru í Þórsmörk því þeir þurfa að þola álagið. Skógræktin hefur séð um viðhald á göngustígunum. Gert er ráð fyrir að á svæðinu sé hægt að fara í lengri og skemmri gönguferðir um svæðið.

Salernismál á svæðinu eru í ágætismálum, einkum í Húsadal, að sögn Skúla.      

Eykur möguleika til útivistar

Brúin á eftir að opna svæðið og auka möguleika margra á að ferðast um svæðið meðal annars fótgangandi, á hjóli eða á hestum. Til að komast inn í Þórsmörk þarf að keyra yfir Markarfljót á stórum jeppa eða fjallabíl. „Það felst líka mikið ævintýri í því að keyra veginn inn í Þórsmörk og þurfa að keyra yfir ána,“ segir Skúli en tekur fram að í því felist alltaf áhætta líka. Dæmi eru um að óreyndi  ferðamenn sem eru óvanir straumvötnum eyðileggja eða stórskemma tugi bíla á Þórsmerkurleið á hverju ári, að sögn Skúla.

Með því að nota göngubrúna myndi það bæði stuðla að öryggi vegfarenda auk þess yrði sá ferðamáti umhverfisvænni að ferðast á tveimur jafn fljótum en í stórum jeppa, að hans mati. Í ofna á lag myndi göngubrúin auka öryggi á svæðinu ef eldgos yrði en síðast gaus í Eyjafjallajökli árið 2010.   

Brúarstæðið er þar sem blái hringurinn er til hægri á …
Brúarstæðið er þar sem blái hringurinn er til hægri á myndinni. Tölvumynd/Vegagerðin

Umferð á eftir að aukast

Fyrirséð er að umferð eigi eftir að aukast í Fljótshlíðina með tilkomu göngubrúarinnar. Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir nauðsynlegt að Vegagerðin lagi veginn í Fljótshlíðinni samhliða því að brúin yrði byggð. Vegurinn frá Múlakoti og að innsta bænum Fljótsdal í Fljótshlíð er malarvegur.  „Við höfum verið að þrýsta á Vegagerðina um að gera þennan veg líkt og marga aðra vegi í sveitarfélaginu að varanlegum vegi,“ segir Ísólfur Gylfi. 

Aðspurður hvort það þurfi ekki að koma upp meiri þjónustu á svæðinu með auknum ferðamannafjölda eins og til dæmis salernisaðstöðu, segir hann að það hafi ekki verið rætt. „Þetta er alltaf spurning um hver eigi að koma upp slíkri aðstöðu og reka hana eins og salerni. Við teljum að ríkið og þá Vegagerðin eigi að vera fordæmisgefandi í því.“

„Blendnar tilfinningar til brúarinnar“

„Það eru aðeins blendnar tilfinningar til brúarinnar en þó eru miklu fleiri sem eru jákvæðir,“ segir hann aðspurður um viðhorf heimamanna til göngubrúarinnar. Hann bendir á að hún er á afréttarlandi og það land hafi sérstakan sess í hjörtum heimamanna og bætir við: „Afréttin er viðkvæmt svæði og ákveðin paradís í hverju sveitarfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert