Kostnaðaraukningin sláandi

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ástæðu til að hafa …
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ástæðu til að hafa áhyggjur af auknum kostnaði fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kostnaðaraukning sem verður á lyfjum, tannlækningum, sálfræðiþjónustu og hjálpartækjum með breytingunum sem urðu á kostnaðarþátttöku sjúklinga núna 1. maí sl. er sláandi. Þetta kom fram í máli Oddnýjar G. Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, í umræðu um greiðsluþátttöku sjúklinga á Alþingi nú í dag.

Oddný gerði að umtalsefni að ASÍ hefði í dag birt á heimasíðu sinni dæmi um kostnaðarþátttöku sjúklinga vegna breytinga á heilbrigðiskerfinu. „Kostnaðaraukningin er í mörgum tilfellum gríðarleg,“ sagði hún. „Ástæða er því til að hafa áhyggjur af auknum kostnaði fólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir nýtt kerfi. Mikil hækkun er líkleg til að fjölga þeim sem neita sér um heilbrigðisþjónustu enn frekar og þetta kemur verst niður á konum og fólki í verstu tekjuhópunum.“

Vissulega væri gott að kostnaður þeirra sem oft þurfi að leita læknis lækki. „En fyrir flesta aðra mun kostnaðurinn hækka og það er m.a. kostnaður vegna lyfja, tannlækninga, sálfræðiþjónustu og hjálpartækja. Hækkunin er sláandi og hún er meiri hjá lífeyrisþegum en almennum sjúklingum,“ sagði Oddný og benti á að mun fleiri fresti læknisheimsóknum á Íslandi en hinum Norðurlöndunum vegna kostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert