Lyf sem talið er sjúklingi lífsnauðsynlegt hefur ekki verið til í talsverðan tíma hér á landi og er ekki væntanlegt í lyfjabúðir fyrr en í fyrsta lagi í lok þessarar viku.
„Ég hef tekið lyfið í ellefu ár og aldrei áður lent í því að það sé ekki til,“ segir ungur karlmaður sem er með Addison-sjúkdóminn og þarf nauðsynlega að taka lyfið Florinef á hverjum degi.
Addison-sjúkdómurinn hefur þau áhrif að líkaminn framleiðir ekki streituhormón og kemur Florinef-lyfið í staðinn fyrir hormón sem stjórnar jafnvægi á saltbúskap líkamans, án þess verður ójafnvægi á söltunum í líkamanum sem gæti t.d. valdið truflun á blóðþrýstingi. Að sögn mannsins gæti hann reddað sér með því að borða ákveðið magn af salti á dag en það gangi ekki til lengdar. „Ég hef ekki lent í því áður að fá ekki lyfið svo ég veit ekki hvað gerist en ætli ég gæti ekki endað inni á spítala með eitthvað í æð,“ segir hann.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir maðurinn að hann gæti hann bjargað sér með því að borða ákveðið magn af salti á hverjum degi en það gengi ekki til lengdar. Samkvæmt upplýsingum lyfjadreifingarfyrirtækisins er ástæðan fyrir því að Florinef fæst ekki sú að nauðsynlegt reyndist að skipta um fylgiseðil í pakkningum lyfsins.