Fé skortir til að halda úti námi fyrir fólk með þroskahömlun næsta skólaár. Útlit er fyrir að tveggja ára diplómanám fyrir slíka nemendur í Myndlistaskóla Reykjavíkur verði ekki í haust. Námið er fjármagnað að hluta með fé frá Fjölmennt sem sér um að veita styrkjum til fullorðinsfræðslu fyrir fatlað fólk á öllu landinu.
Fjölmennt þarf að skera niður nám því meira fé vantar frá ríkinu til að veita í starfið, að sögn Helgu Gísladóttur forstöðumanns Fjölmenntar. Menntamálaráðherra vísar ábyrgðinni á niðurskurðinum yfir á Fjölmennt sem er jafnframt háð fé frá ríkinu.
Árið 2018 eru veitt 254 milljónum króna til Fjölmenntar en árið 2009 voru þetta 258 milljónir króna. „Inni í þessa krónutölu koma meðal annars hækkanir á launum kennara, sem ekki var vanþörf á, en sáralítið hefur verið komið til móts við hækkun á þeim kostnaði,“ segir Helga og bendir á að stöðugt hefur verið skorið niður í fræðslu og námskeið fyrir þennan hóp fólks.
„Við þurftum að velja milli þess að styrkja Myndlistaskólann eða útiloka mikið fatlað fólk frá námi,” segir Helga en tekur fram að námið við Myndlistaskóla Reykjavíkur sé mjög mikilvægt. Hún segir stöðuna ekki góða að þurfa að velja á milli.
Orðalus eftir fund með menntamálaráðherra
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir námið í Myndlistarskólanum vera gríðarlega mikilvægt fyrir þennan hóp fólks með þroskaskerðingu því námsframboð fyrir þá sem eru eldri en 20 ára er mjög takmarkað og skortur er á námstilboðum.
Landsamtökin Þroskahjálp áttu fund með menntamálaráðherra nýlega þar sem farið var yfir námsframboð fyrir þennan hóp og bent á mikilvægi þess að auka fé í málaflokkinn. „Mér er eiginlega orðavant eftir þennan fund. Það var sagt berum orðum að [menntamála]ráðuneytið mun ekki mæta fjármagnsþörfinni. Ráðherra vísaði á Fjölmennt. Við vitum að Fjölmennt er ekki aflögufært þar sem stofnunin býr við stöðugt fjársvelti af hendi ríkisins og þarf stöðugt að draga úr námsframboði,” segir Bryndís.
Bryndís bendir á að það skjóti skökku við að á sama tíma og Alþingi fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem felur meðal annars í sér að stjórnvöldum ber að halda uppi námi fyrir þennan hóp fólks þá er skorið niður til málaflokksins. Skrifað var undir samninginn árið 2007 en hann var fullgiltur haustið 2016.
„Það er skortur á námsframboði fyrir þennan hóp og því finnst mér óþolandi að fólk kafni í þvermóðskuhætti því þetta eru ekki það miklir fjármunir sem þarf til að halda náminu úti,“ segir Bryndís.
Bryndís og Helga taka báðar í sama streng og segja ólíðandi að ekki sé hægt að bjóða fólki með þroskahömlun fleiri möguleika til náms en raun ber vitni.
Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistaskóla Reykjavíkur, hefur óskað eftir fundi með menntamálaráðherra en hefur ekki fengið nein svör um að hún fái áheyrn. Einu svörin sem Áslaug hefur fengið er að þetta er til skoðunar og að svör fáist í haust. Á þeim tíma er það orðið of seint því skipulag og umsóknir fyrir næsta skólaár þarf að liggja fyrir.
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra hefur tvívegis verið spurður á Alþingi um diplómanám í Myndlistaskóla Reykjavíkur fyrir fólk með þroskahömlun. Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði hann hvort hann myndi beita sér fyrir því að tryggja fá til námsins í síðustu viku. Hann vísaði ábyrgðinni yfir á Fjölmennt sem væri tæki þessa ákvörðun um að skera niður þetta nám.
Þá var Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, með fyrirspurn í þremur liðum um námið 25. apríl síðastliðinn. Ráðherra hefur ekki svarað skriflega þeirri fyrirspurn.
Fjölmennt rekur símenntunarstöð fyrir fatlað fólk á öllu landinu með þjónustusamningi sem Menntamálaráðuneyti gerði við Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands. Á síðasta skólaári sóttu 693 námi í Fjölmennt á landsvísu og á bilinu 400 til 450 á höfuðborgarsvæðinu.