Þrír karlmenn hafa verið sýknaðir af ákæru embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um hatursorðræðu. Er þar með búið að sýkna fimm einstaklinga af sambærilegum ákærum á þessu ári. Komu ákærurnar til vegna ummæla sem voru látin falla á samskiptamiðlum, á netsíðum og í beinni útsendingu á Útvarpi Sögu. Ummælin féllu í kjölfarið af ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að hefja hinseginfræðslu í grunnskólum bæjarins.
Sami dómari var í málunum þremur og vísaði hann til þess að þótt tjáningarfrelsi megi setja skorður, þá sé slíkt frelsi ein af undirstöðum lýðræðisþjóðfélags þegar kemur að opinberri umræðu og frjálsra skoðanaskipta. „Opinber umræða um hvað eina í lýðræðisþjóðfélagi hefur iðulega í för með sér ýmiss konar óþægindi fyrir einstaklinga og eða hópa fólks. Fólk móðgast, hneykslast eða reiðist, telur á sig hallað, telur á sér brotið og svo framvegis. Þetta er óhjákvæmilegur fylgisfiskur opinberrar umræðu í lýðræðisþjóðfélagi,“ segir í öllum dómunum og að ummælin sem ákært sé fyrir kunni að vera þessu marki brennd. Dómari telur þó ekkert í skrifunum vera brot á almennum hegningarlögum.
Í einum dómi héraðsdóms kemur fram að prestur hafi verið ákærður fyrir eftirfarandi ummæli á Facebook: „Hlutlausa kynfræðslu á veita í skólum en ALDREI réttlæta ónáttúrulega kynhegðan fyrir saklausum börnum og kalla það sem er óeðlileg eðlilegt!!!“ Gekkst hann við að hafa skrifað ummælin en neitaði sök í málinu. Tók dómari undir þau sjónarmið prestsins.
Í öðru máli var maður ákærður fyrir eftirfarandi ummæli í athugasemdakerfi visis.is: „Við hlustendur útvarps Sögu kærum okkur ekki um neinar fjandans útskýringar Óskars Steins á þessari kynvillu. Þetta er ógeðslegt. Að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu. Óskar Steinn getur þess vegna setið heima hjá sér heldur en að troða sér inn á útvarp Sögu. Þvílíkt ógeð.“ Eins og í fyrra málinu neitaði maðurinn sök en gekkst við að hafa skrifað ummælin. Sagði hann fyrir dómi að hann hafi verið ósáttur við ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, en að hann hafi ekki ætlað að vekja upp þau viðbrögð sem ákært var fyrir.
Þriðja málið er nokkuð frábrugðið hinum að því leyti að þar virðist saksóknari hafa ákært fyrir ummæli sem tengdust ekki ákvörðun Hafnarfjarðar, heldur voru þau látin falla í kjölfarið af Gleðigöngunni. Þá segir ákærði að hann sé stuðningsmaður réttindabaráttu samkynhneigðra og að ummælin hafi verið stuðningur við opna umræðu. Þá hafi hluti skrifanna verið líkindamál.
Ummælin sem um ræðir voru: „Hvar væri þjóðin ef ekki væri fyrir þig? Allir labbandi í G streng og japlandi á typpasleikjóum. Það þarf bara að gera þessa klámkalla að tunnumönnum á öfuguggatogara. Þessi yfirvöld eru á villigötum. Það tekur annar hver maður í dag trollið inn að aftan!“ og féllu á Facebook.
Í dómnum segir að í raun hefði átt að vísa málinu frá þar sem það var byggt á röngum forsendum, en „eins og á stendur þykir hins vegar rétt að fjalla efnislega um málið.“ Vísar dómarinn til þess að þar sem meira en tvö ár hafi liðið frá því að ummælin féllu árið 2014 og þangað til ákærði fékk vitneskju um kæruna á hendur sér árið 2016, þá beri að sýkna manninn.
Fyrr á árinu voru karlmaður og kona sakfelld fyrir hatursorðræðu, en þá tengdist málið ekki samkynhneigð heldur umræðu um múslima. Hafði maðurinn meðal annars sagt að aflífa ætti formann Félags múslima á Íslandi og hvatti konan fólk til að fá sér byssuleyfi og fara vopnað keðjum og rörbútum ef það færi í bæinn. Sjálf hikaði hún ekki við að nota slíkt ef hún þyrfti á því að halda. Svo mikið hataði hún og fyrirliti múslima.