Umtalsverð fjölgun íbúða og þjónustuhúsnæðis er fyrirhuguð við ofanverðan Laugaveg á athafnasvæði Heklu við Laugaveg og Brautarholt. Gert er ráð fyrir að fjöldi íbúða á svæðinu geti verið 320 – 350 íbúðir.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um uppbygginguna og verður hún samstillt við fyrirhugaðan flutning höfuðstöðva Heklu í Suður-Mjódd, en unnið er að því hjá Reykjavíkurborg að gera þá lóð úthlutunarhæfa, að því er segir í tilkynningu á vef borgarinnar.
Þá kemur fram, að nú standi yfir hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag svæðis meðfram samgöngu- og þróunarás við Laugaveg og sé niðurstöðu dómnefndar að vænta í næsta mánuði. Að undangengnu forvali voru valin fimm teymi sem eru:
Teymin skila gögnum 12. júní og dómnefnd er ætlað að ljúka störfum eigi síðar en 29. júní nk.
„Í Aðalskipulagi Reykjavíkur er Laugavegur skilgreindur sem hluti af samgöngu- og þróunarás, en þarna mun hin nýja Borgarlína liggja. Markmið aðalskipulags er að þétta byggð meðfram ás almenningssamgangna á milli miðborgar og lykil þróunarsvæða í austri. Við endurskipulagningu svæða sem liggja við samgönguásinn á að þróa núverandi götur í borgargötur með sérakreinum fyrir almenningssamgöngur og hugað er sérstaklega að þéttingu byggðar í grennd við biðstöðvar.
Gert er ráð fyrir blandaðri byggð, íbúðabyggð og atvinnustarfsemi á svæðinu til framtíðar.
Við uppbygginguna verða lögð til grundvallar markmið Reykjavíkurborgar um aukna hlutdeild leigumarkaðs á húsnæðismarkaði, blöndun byggðar á svæðinu og kauprétt vegna félagslegs húsnæðis og leiguíbúða. Jafnframt er skilyrði að hugsað sé um listskreytingar á svæðinu. Hekla hf. mun kosta vinnu við undirbúning og gerð deiliskipulagsbreytinga á reitnum ásamt Reykjavíkurborg,“ segir í tilkynningunni.