Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að peningastefnunefnd ætti að taka á sig rögg núna í maí og lækka vextina myndarlega.“ Þetta kemur fram í nýjum pistli ráðherrans á vefsíðu Viðreisnar, en þar fer hann yfir fyrstu 111 daga ríkisstjórnarinnar.
Benedikt segir að lægri vextir hér á landi séu keppikefli, enda stuðli háir vextir að háu gengi krónunnar, gengi sem útflutningsgreinarnar séu að kikna undan. Vísar hann til þess að samkeppni um starfsfólk sé ekki bara innanlands heldur líka að utan og til að byggja upp t.d. tæknistörf þurfi gengið að ná jafnvægi.
Jafnvægi ætti að nást samkvæmt hagfræðimódelum og þannig liggi peningastefnunefnd ekkert mikið á, segir Benedikt. Hann spyr aftur á móti hvað slíkt jafnvægi muni kosta og hver borgi brúsann.
Rifjar Benedikt upp orð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra frá því fyrr á þessu ári um að til þess að fá innlenda aðila til að fjárfesta erlendis og þannig draga úr spennu á gengið, þyrfti að lækka vexti umtalsvert. Engar 0,25 eða 0,5 prósent lækkanir dugi þar.
„Ekki ætla ég að spá fyrir um næstu vaxtalækkun, en það væri gott merki um að bankanum væri alvara í því að stemma stigu við óbærilegri styrkingu krónunnar að lækka vexti um hálft prósent á næsta fundi peningastefnunefndarinnar. Bankinn hefur spornað við styrkingunni með því að kaupa næstum milljarð af gjaldeyri á dag, en vaxtalækkunin væri miklu kröftugra tæki,“ segir Benedikt í pistli sínum.
Hann ítrekar að hann geti ekki sagt Seðlabankanum fyrir verkum, en að hann geti sagt sína skoðun. „Nefndin ætti að taka á sig rögg núna í maí og lækka vextina myndarlega. Hún getur alltaf hækkað þá aftur næst, ef henni finnst viðbrögð hagkerfisins of ofsafengin.“