Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur í vetur unnið verkefni með innflytjendum á Íslandi sem miðar að því að mynda tengsl og auka traust þeirra á lögreglunni. Verkefnið hefur tekist gífurlega vel og horfa Frakkar nú til þess að innleiða svipað verkefni. „Ég er í skýjunum“ segir Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi hjá LRH en hún og Ævar Pálmi Pálmason, lögreglufulltrúi, kynntu verkefnið ásamt nokkrum þátttakendum úr hópi innflytjenda í dag. Erfitt en gott að losna við fordóma segir þátttandi í verkefninu sem viðurkennir að hann hafi haft mikla fordóma í garð lögreglunnar áður en verkefnið hófst.
Að sögn Eyrúnar þarf lögreglan að ræða við alla kima samfélagsins, þar á meðal innflytjendur en talsverð umræða hefur verið á alþjóðavísu um tengslaleysi lögreglu við minnihlutahópa og afleiðingar þess. Slíkt tengslaleysi getu haft þær afleiðingar að fólk tilkynnir síður glæpi til lögreglu og vill jafnvel ekki bera vitni í sakamálum.
Hún segir lögregluna á Íslandi einsleitan hóp sem engan veginn endurspegli þjóðina. Vonir standi til þess að verkefni sem þetta geti breytt þessu en ungir menn sem eru ættaðir frá Marokkó stefna einmitt á lögreglunám á Akureyri. Ef af því verður þá verða þeir fyrstu íslensku lögreglumennirnir sem eiga ættir að rekja til Marokkó.
Að sögn Eyrúnar vantar inn í menntun lögreglumanna hér á landi að þeir fái fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins en á því verði breyting á í haust þar sem Háskólinn á Akureyri mun væntanlega taka tillit til þess sem fram koma á verkefninu og nýta í lögreglunámi skólans..
Að sögn Eyrúnar var verkefnið í fyrstu sett á laggirnar í tilraunaskyni en það sé ekki lengur þróunarverkefni heldur komið til að vera. Þrátt fyrir niðurskurð hjá lögreglunni þá sýni lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og yfirstjórn lögreglunnar þá framsýni að leggja verkefninu lið.
Ævar viðurkenndi á fundinum að þegar Eyrún kom að máli við hann síðasta sumar og bað hann um að taka þátt þá hafi hann ekki haft mikla trú á þessu. En látið slag standa og hann sjái svo sannarlega ekki eftir því.
Í sínu starfi sé hann vanur því að glíma við fólk sem hefur brotið af sér og endurspeglar ekki þorra landsmanna, hvort heldur sem þeir eru af íslenskum uppruna eða erlendum. Í verkefninu hafi hann kynnst frábærum hóp innflytjenda sem er af ólíkum uppruna, hvort heldur sem trúarbrögð, kyn, kynvitund eða hvað sem er. Enda snerist verkefnið ekki um það og segir hann að spurningin um trúarbrögð hafi aldrei komið upp enda ekki tilgangurinn og fólk ekki spurt hverrar trúar það væri áður en það kom inn í hópinn.
Tæplega 30 þátttakendur í upphafi en þeim fækkaði aðeins þegar leið á veturinn. Ægir segir að strax eftir fyrsta fundinn hafi hann farið heim fullur af jákvæðni en um leið hissa á því hvað fólk hafði slæma af lögreglu frá sínu heimalandi. Til að mynda kona frá Filippseyjum sem benti á hvað lögreglan í hennar heimalandi er að gera þessi misserin. Framkoma lögreglunnar þar er síst til þess fallin til að auka trú almennings á lögregluna.
Eyrún segir að í næsta verkefni muni lykilþátttakendur halda áfram en koma þá að framkvæmdinni ásamt lögreglu. Eins verði fólki boðin þátttaka óháð því hvaðan það kemur því í ljós kom að það væri ekki rétt að miða við innflytjendur frá öðrum álfum en Evrópu. Stærsti hluti innflytjenda hér á landi kemur frá Póllandi og rannsóknir sýna að þeir hafa margir neikvæða mynd af lögreglunni frá heimalandi sínu. Jafnframt er ætlunin að fá inn í hópinn fólk sem er fætt og uppalið á Íslandi. „Því með verkefninu viljum við skapa vináttu og samkennd meðal ólíkra hópa og það verður best gert með þátttöku sem flestra,“ segir Eyrún.
Samhliða verkefninu hafa 45 lögreglumenn á landsvísu sótt námskeið um fjölbreytni samfélagsins sem Eyrún stóð að í samvinnu við mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir að þátttakan hafi farið fram úr sínum björtustu vonum. „Ég er í skýjunum með verkefnið,“ segir Eyrún og bætir við að það eigi við um viðbrögð lögreglunnar sem og þátttakenda í verkefninu.
Jafnframt hafa 9 lögreglumenn víðsvegar af landinu verið þjálfaðir í að þjálfa aðra lögreglumenn varðandi hatursglæpi á vegum dómsmálaráðuneytisins og mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.
Nokkrir þátttakendur í verkefninu greindu frá upplifun sinni og eiga þeir allir sameiginlegt að vera yfir sig ánægðir. Ekki bara varðandi tengsl við lögreglu heldur einnig þau tengsl sem hafa myndast innan hópsins.
Einn þeirra segir að það hafi líka skipt miklu að lögreglan hafi leitað til þeirra um að taka þátt. „Lögreglan vildi vinna með okkur og það er mikilvægt. Eitt af því besta var ekki að starfa með lögreglunni heldur að við unnum með lögreglunni og kynntumst fólki annars staðar frá – kynntumst nýju fólki og þetta kemur til með auðvelda okkur lífið. Það er mikilvægt að okkur komi vel saman – traustið sem okkur er sýnt er líka mikilvægt,“ segir einn þátttakenda.
Annar bendir á að innflytjendum hafi fjölgað mjög á Íslandi undanfarin ár og þeir séu af ólíkum uppruna. Hann komi sjálfur frá Gvatemala þar sem gríðarleg spilling er innan lögreglunnar og það hefði aldrei hvarflað að honum að eiga samskipti við lögregluna þar.
„Með því að koma og flytja til Íslands verðum við líka að læra þær reglur sem hér gilda og hver sé okkar ábyrgð sem þjóðfélagsþegnar,“ segir einn þeirra sem tók þátt í námskeiðinu.
Einn þeirra sem talaði á fundinum er fæddur í Vestur-Afríku en hefur búið í Evrópu lengi. Hann segir mikilvægt að fá þau skilaboð frá lögreglunni að hún þurfi á þeirra aðstoð að halda við að mynda tengsl. Hann sé alinn upp við að treysta ekki lögreglu og tala aldrei við hana því það þýði bara vandræði. Það sé erfitt að losa sig við þessa fordóma en verkefnið hafi hjálpað honum mikið við að losna við fordóma í garð lögreglunnar því fordómar byggi svo oft á misskilningi og vanþekkingu.
Innflytjandi frá Egyptalandi en ættaður frá Sýrlandi segist koma frá ólíku umhverfi en hér er. Í heimalandinu sé bæði loftslagið hlýtt og mikill hiti í samfélaginu. Hér aftur á móti sé loftslagið kalt en fólkið hlýtt. Það sé gott að kynnast því að svo sé einnig með lögreglu á Íslandi.
Hann segir að það hafi verið mikil viðbrigði að koma hingað til lands og það hafi liðið talsverður tími þangað til hann komst í kynni við íslenskt samfélag. Mikilvægt sé að taka þátt í verkefni sem þessu og að kynnast fólki af ólíkum uppruna. Ekki síður fyrir lögreglu að kynnast ólíkum viðhorfum fólks sem kemur svo víða og skilja hræðslu sumra í garð lögreglu.
„Ef þú þekkir ekki fólk þá lítur þú kannski á það sem andstæðinga en um leið og þú kynnist fólki þá breytist viðhorfið,“ segir hann.
Dominik Scherrer, sérfræðingur á sviði samvinnu ólíkra sjónarmiða á jafnréttisgrundvelli, ræddi verkefni sem þetta á kynningarfundinum og segir mikilvægt að læra af hvort öðru – að fara út fyrir þægindarammann. Þetta snúist um að aftengja sig svona eins og þú gerir þegar þú sækir ólíkt samfélag heim þar sem aðrar hefðir ríkja. Dominik tók sem dæmi Vesturlandabúa sem fara til Japan og fá sér núðlur. Erfitt sé að komast í gegnum slíka máltíð í fyrstu án þess að alls konar hljóð heyrist - sem ekki er alveg í takt við uppeldið á Vesturlöndum.
„Hvað ef við förum að hittast reglulega og tala saman (lögregla og innflytjendur) og skiptast á skoðunum. Við eigum öll það sameiginleg að vilja búa í öruggu samfélagi þar sem traust ríkir. Með því að kynnast og læra hvert af öðru, skiptast á skoðunum og þekkingu, aukast líkurnar á því að svo verði,“ segir Dominik.
„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og það þarf heilt samfélag til þess að láta verkefni sem þetta ganga upp,“ bætir hann við að lokum.
Á fundinum voru tveir gestir frá Frakklandi, Gaelle Van Der Maslow og Stephane Lemercier sem vinna að samvinnu minnihlutahópa og lögreglu í Frakklandi. Gaelle starfar með hópi sem hefur áhuga á að bæta tengsl og auka samskipti milli innflytjenda og lögreglu í Frakklandi en Stephane er lögreglumaður í París. Þau hafa unnið að svipuðu verkefni og íslenski hópurinn en munurinn er sá að frönsk yfirvöld hafa ekki stutt verkefnið á nokkurn hátt heldur er þetta sjálfboðaliðastarf lögreglumanna eins og Stephane.
Þau eru sammála um mikilvægi þess að koma á tengslum enda oft djúp gjá á milli fólks af erlendum uppruna í Frakklandi og lögreglu.
Þau segja að það sé mikil hvatning að sjá hvernig sé staðið að þessu hér á landi og íslenska verkefnið verður væntanlega yfirfært til Frakklands vegna þess góða árangurs sem hér hefur náðst.