Flókin mál sem hægt er að leysa

Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála TM.
Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála TM.

Vilji er til þess að finna leiðir til að bæta tjón sem fasteignaeigendur verða fyrir vegna veggjatítlu og myglusvepps. Þetta kom fram í viðtali við Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á RÚV nýlega.

Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála hjá TM, tekur í sama streng og segir félagið skoða þessi mál. Hægt sé að finna leiðir ef viljinn sé fyrir hendi. Málið sé flókið og spurning hvort réttlætanlegt sé að eigendur steyptra húsa greiði fyrir tjón sem verða í timburhúsum.

Kjartan segir umræðuna um bætur vegna tjóna af völdum veggjatítla í húsum hafa verið tekna nokkrum sinnum. Þessi tjón komi upp á nokkurra ára fresti og séu áberandi í samfélagsumræðunni.

„Við höfum ekki orðið vör við aukningu á tjónum vegna veggjatítlu. Tjón af völdum veggjatítlu eru stór mál. Að missa fasteign sem í mörgum tilfellum er stærsta fjárfesting einstaklinga er mikið áfall.“

Mörg álitamál 

Kjartan segir að upp komi álitaefni þegar tryggingamál vegna slíkra tjóna eru skoðuð. Það þurfi að taka afstöðu til verðlagningar, áhættu og hverjir eigi að borga fyrir slíkar tryggingar. Hvort öllum verði gert að kaupa slíka tryggingu eða eingöngu þeim sem eiga timburhús, hvort það eigi við um öll timburhús eða einungis eldri hús og einnig hvort tryggingarnar eigi að vera valkvæðar eða hluti af lögboðinni tryggingu.

„Er það sanngjarnt að fólk sem býr í steyptum húsum þurfi að kaupa tryggingar fyrir tjón sem verður timburhúsum?“

Áhættumatið segir Kjartan talsvert flókið. „Það þarf að finna út úr því hvaða rannsóknir þurfi að fara fram áður en skilmálar trygginga og iðgjalda verða settir fram. Tjón af völdum veggjatítlu er ekki skyndilegt utanaðkomandi tjón eins og þegar þak fýkur af húsi eða rör springa. Tjón af völdum veggjatítlu gerist á löngum tíma. Óværan þrífst við ákveðin skilyrði, það geta því alltaf komið upp álitaefni um hvort eðlilegu viðhaldi hafi verið sinnt,“ segir Kjartan sem tekur fram að hann hafi ekki sérfræðiþekkingu í veggjatítlum.  

Mygla eða myglugró í öllum húsum 

Myglusveppurinn er af öðrum meiði að mati Kjartans sem tekur það fram að hann sé heldur ekki sérfræðingur í myglusveppi. Hann segir myglu geta komið í kjölfar tjóna sem falla undir vátryggingar. Líkt og veggjatítlurnar getur mygla verið langvarandi ástand. Margar tegundir af myglu séu til. Sumar skaðlegar en aðrar ekki.

„Það er mygla eða myglugró af einhverju tagi í öllum húsum og það er misjafnt hvernig mygla leggst á einstaklinga. Þau mál sem koma upp vegna myglu eru flókin. Kanna þarf hvort mygla hafi komið í kjölfar bótaskylds tjóns eða ófullnægjandi viðhalds. Getur það talist eðlilegt að hægt sé að vátryggja tjón sem verður vegna lélegs viðhalds?“

Kjartan segir alla af vilja gerðir til þess að skoða vátryggingar þegar kemur að tjóni vegna veggjatítlu annar vegar og myglusvepps hins vegar. „Það er hægt að finna leiðir ef viljinn er fyrir hendi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert