Baldur Arnarson
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir fyrirhugað innviðagjald munu bætast við lóðaverð. Gjaldinu er ætlað að standa straum af uppbyggingu borgarlínu að hluta.
Dagur segir að með tilkomu borgarlínunnar muni fasteignaverð hækka og verðmæti byggingarréttar aukast. Gjaldið sæki hluta þess ábata. „Þannig myndu allir græða. Þeir sem eiga byggingarréttinn og lóðirnar og þeir sem þurfa að fjármagna þetta,“ segir Dagur. Hann staðfestir að gjaldið verði því hluti af lóðarverði við línuna.
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) áætla að 1. áfangi verkefnisins kosti 30-40 milljarða. Áformað er að honum verði lokið 2022. Ármann Kr. Ólafsson, formaður SSH, segir innviðagjaldið ekki hafa verið útfært. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann gjaldið munu hækka byggingarkostnað.