„Þetta er skandall“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu stjórnarliða harðlega vegna fyrirhugaðrar sameiningar Tækniskólans og Fjölbrautaskólans í Ármúla undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í dag.

Kallað var eftir svörum menntamálaráðherra, sem var ekki í salnum. Þingforseti greindi frá því að ráðherra hefði boðað fjarvist en hann er ekki á landinu.

RÚV greindi frá því í morgun að til stæði að sameina Fjöl­braut­a­skól­ann í Ármúla og Tækni­skól­ann. Skóla­meist­ar­ar skól­anna tveggja vildu ekk­ert segja um málið þegar að frétta­stofa RÚV hafði sam­band við þá nú í morg­un en vísuðu á ráðuneytið.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kvörtuðu harðlega yfir því að hafa heyrt af málinu í morgunfréttum RÚV og að ákvörðun um sameiningu hefði verið tekin í skjóli nætur. 

„Þetta er skandall,“ sagði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar hún tók til máls. 

„Jú, það á að fara í einkavæðingu með því að sameina Fjölbrautaskólann í Ármúla Tækniskólanum, sem er vissulega einkarekinn, án allrar umræðu við þingið, án þess að nokkur stefnumótandi umræða hafi verið tekin á vettvangi þingsins,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. 

„Og útskýringarnar sem eru gefnar eru að það eigi að bregðast við fækkun nemenda á framhaldsskólastigi og hann talar eins og það sé eitthvert náttúrulögmál en ekki hin pólitíska ákvörðun sem Sjálfstæðismenn hafa tekið um að heimila ekki  nemendum yngri en 25 ára að stunda bóknám og að stytta framhaldsskólann með einhliða ákvörðun niður í þrjú ár. Þetta eru ekki boðleg  vinnubrögð,“ bætti Katrín við.

Bergþóra Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks VG, sendi frá sér tilkynningu þess efnis að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, hafi boðað menntamálaráðherra á fund nefndarinnar.

„Fulltrúar Vinstri grænna, Pírata og Framsóknar í nefndinni fóru fram á að fundurinn yrði opinn. Formaður er nú að kanna hvort sé hægt að koma því við á morgun, eða hvort fundurinn myndi þá frestast fram yfir helgi,“ segir í tilkynningunni.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálnefndar, greindi frá því að Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra komi á fund nefndarinnar á morgun og þriðjudag til að ræða þessi mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert