Enn á móti gangagerðinni

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Árni Sæberg

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi samgönguráðherra og þingmaður VG, skrifar harðorðan pistil á heimasíðu sína ogmundur.is, um Vaðlaheiðargöngin og kjördæmapotara, sem hann nefnir í fyrirsögn pistilsins „kraftaverkamenn“ íslenskra stjórnmála. Steingrímur J. Sigfússon gefur lítið fyrir gagnrýni Ögmundar, en segir að sér finnist leitt ef Ögmundur geti ekki unnt Norðlendingum þess að gleðjast yfir þessum áfanga.

Ögmundur sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að með því að skrifa ofangreindan pistil hafi hann viljað minna á það sem hann hafi sagt frá upphafi um andstöðu sína við gerð ganganna, því sér þætti ástæða til þess að þessu væri haldið til haga, „vegna þess að stjórnmálin og mistökin sem þar eru gerð, eru til þess að læra af þeim,“ sagði Ögmundur.

Aðspurður hvernig hann teldi að fyrrverandi formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG í Norðausturkjördæmi og Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, tækju þeirri gagnrýni sem fram kæmi í pistlinum á kjördæmapotara, sagði Ögmundur: „Ég velti því ekkert mikið fyrir mér. Þessi sjónarmið sem ég set fram í pistlinum eru þau sömu og ég hafði frá upphafi. Þegar verið er að gera fögnuðinum um að haftið í göngunum hafi verið sprengt, svona hátt undir höfði, finnst mér sjálfsagt að þessi sjónarmið mín komi fram á nýjan leik. Það voru alls ekki allir sammála um þessa framkvæmd og mér finnst mjög mikilvægt að við færum okkur út úr þessum farvegi ákvarðanatöku. Því miður er þetta ekki liðin tíð.“

Steingrímur J. Sigfússon: Ég mun ekki svara gagnrýni Ögmundar.
Steingrímur J. Sigfússon: Ég mun ekki svara gagnrýni Ögmundar. mbl.is/Ómar Óskarsson

– Áttu von á því að þú munir keyra um Vaðlaheiðargöng eftir að þau verða komin í gagnið?

„Ég hef ekki hugmynd um það. Það er afskaplega fallegt að keyra um Víkurskarðið, og ég er ekki viss um að ég vilji verða af þeirri fegurð,“ sagði Ögmundur. „Ég mun ekki svara gagnrýni Ögmundar, en segi þó að mér finnst leitt, ef Ögmundur getur ekki unnt Norðlendingum þess að gleðjast yfir þessum áfanga í framkvæmdinni,“ var það eina sem Steingrímur J. Sigfússon vildi segja, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.

Í pistli Ögmundar segir m.a.: „Ráðherra samgöngumála (Ögmundur – innskot. blm.) sem ábyrgur var fyrir málaflokknum var því andvígur að ráðist yrði í framkvæmdina á þeim forsendum sem fyrir lágu. Sú afstaða var virt að vettugi í ríkisstjórn og síðar á þingi.“

Ögmundur skrifar undir lok pistilsins, sem birtur var 3. maí sl.: „Vaðlaheiðargöngin eru dæmi um ranga forgangsröðun. Þau eru líka dæmi um yfirgang og pólitíska frekju.

Vinnubrögðin í þessu máli skýra hvers vegna pólitískir flokkar tapa tiltrú.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert