Hjólaði upp á Hvannadalshnjúk

Símon Halldórsson uppi á Hvannadalsnhjúki í dag með hjólið sitt.
Símon Halldórsson uppi á Hvannadalsnhjúki í dag með hjólið sitt. Ljósmynd/Steinn Hlíðar Jónsson

„Þetta var mjög erfitt,“ segir Símon Halldórsson sem gerði sér lítið fyrir og hjólaði upp á Hvannadalshnjúk, hæsta tind landsins.

Ferðalagið tók ellefu klukkustundir. Hann lagði af stað um eittleytið í nótt upp hnjúkinn og komst á leiðarenda um hádegisbilið. 

Símon tekur þó fram að hann hafi ekki hjólað alla leiðina, heldur teymdi hann hjólið hluta leiðarinnar eða hélt á því, þegar aðstæður leyfðu ekki annað. 

Hann veit ekki til þess að þetta hafi verið gert áður. Með Símoni í för voru félagar hans í Björgunarsveit Hafnarfjarðar og héldu þau hópinn alla leiðina upp. Hann var þó sá eini sem tók hjólið með sér. „Þetta þykir nú ekki alveg heilbrigt, ef maður á að segja alveg eins og er,“ segir hann og hlær.

Hann segir að fjölmenni hafi verið á toppnum, enda veðrið með eindæmum gott, og giskar á að um 150 manns hafi verið þar á svipuðum tíma og hann. 

Frá Vatnajökulsþjóðgarði. Hvannadalshnjúkur trónir fyrir miðri mynd.
Frá Vatnajökulsþjóðgarði. Hvannadalshnjúkur trónir fyrir miðri mynd. mbl.is/Sigurður Bogi

Hugmyndin lengi í kollinum

Hugmyndin um að hjóla upp Hvannadalshnjúk hefur lengi verið í kollinum á Símoni, sem er vanur hjólreiðamaður. Það var svo fyrir þremur dögum sem ein úr hópnum spurði hann af hverju hann tæki ekki hjólið sitt bara með upp fjallið í staðinn fyrir gönguskíðin. Ákvað hann að láta til leiðast.

Ætlarðu að gera þetta aftur?

„Nei, þetta er bara búið. Það þarf ekki að gera þetta aftur,“  segir hann. „Þetta var erfitt og ég skil vel af hverju fólk hefur ekki gert þetta áður.“

Hjólið sem Símon var á er svokallað „fat-bike“-hjól. Dekkin eru 4,8 tommur á breidd og gjarðirnar 100 millimetra breiðar. Ef hleypt er úr dekkjunum flýtur hjólið vel í snjónum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka