Baltasar Kormákur man ekki eftir því að hafa farið til Keflavíkur sem barn öðruvísi en að hugsa um hvarf þeirra Guðmundar og Geirfinns Einarssona. Hann kynntist Sævari Ciesielski á börum bæjarins fyrir margt löngu. Sævar bað hann þá að leika sig ef til þess kæmi.
Baltasar segir ólíklegt að af því verði nú sem komið er en framleiðslufyrirtæki hans, RVK Studios, hefur samið við fyrirtækið Buccaneer Media um framleiðslu sjónvarpsþátta byggða á Guðmundar– og Geirfinnsmálunum. Gangi allt eftir verður hafist handa við þáttagerðina síðla árs 2018.
Stefnt er að því að taka þættina upp á Íslandi en á ensku. Baltasar segir það auðvelda alla fjármögnun og þannig megi vanda betur til verka. Verkefnið er enn stutt á veg komið og ekki er búið að ákveða hvort Baltasar muni leikstýra þáttunum sjálfur. „Ég er með margt á prjónunum og vil ekki lofa upp í ermina á mér.“
Hugmyndina að gerð þáttanna má rekja til greinar sem Simon Cox, fréttamaður BBC, birti árið 2014, The Reykjavik Confessions. Í greininni var farið djúpt ofan í málið, það rannsakað frá ýmsum hliðum og viðtöl tekin við fjölmarga.
„Í kjölfar greinarinnar jókst áhugi erlendis mjög á þessu máli,“ segir Baltasar. Hann segir að Sony hafi boðið honum að gera kvikmynd um það en hann hafi hafnað því enda litið svo á að sjónvarpsþættir hentuðu því betur. „Þetta er það flókið og stórt mál að ég held að það fari betur í vandaðri sjónvarpsseríu.“
Enn á eftir að semja í smáatriðum um aðkomu Reykjavik Studios að verkefninu en frumkvæðið að gerð þáttanna kemur að utan. Rannsóknarblaðamaðurinn Simon Cox verður ráðgjafi og John Brownlow mun skrifa handritið.
Baltasar segir að grein Cox hafi verið vönduð og kveikt áhuga hans. „Þetta er mjög stórt mál fyrir Íslendinga og ég gerði mér ljóst að ég myndi ekki gera þetta nema að mjög vel yrði vandað til vera og þetta gert samkvæmt því sem vitað er um málið.“
- Ertu kvíðinn að takast á við þetta verkefni, þar sem þetta mál hefur verið umdeilt allt frá upphafi?
„Ég fer aldrei inn í verkefni með kvíða eða hræðslu,“ svarar Baltasar. Hann segist áður hafa tekið sér fyrir hendur umdeild verkefni, til dæmis gerð kvikmyndarinnar Djúpið, sem var innblásin af því þegar Guðlaugur Friðþórsson náði að bjarga lífi sínu á sundi eftir að skipið Hellisey hvolfdi og sökk árið 1984. Sama megi segja um kvikmynda Everest sem er byggð á mannskæðu slysi sem varð á fjallinu árið 1996. „Um þann atburð hafa verið skrifaðar margar bækur og skapast mikil rifrildi um hvað er satt og logið.“
Baltasar segist því ekki óttast umfjöllunina. „Þetta verður aldrei gert þannig að allir verði á eitt sáttir, þá væru [þættirnir] nú ekki góðir eða spennandi. Ég geng út frá því að vera samkvæmur sjálfum mér og heiðarlegur gagnvart viðfangsefninu og nálguninni. Ég geri það sem ég trúi að sé rétt og satt hverju sinni. Það er mikilvægt fyrir mig.“
Ýmislegt hefur orðið til þess í gegnum tíðina að áhugi Baltasars á því að gera þætti um Guðmundar- og Geirfinnsmálin kviknaði.
„Þetta er svona hryllingssaga sem hefur fylgt okkur,“ segir hann. „Fyrst las maður upp þetta í fjölmiðlum sem barn og var kannski ekki að vefengja það sem var í gangi. Síðan þegar ég fer að reyna mig á börunum í Reykjavík þá kynnist ég sumu af þessu fólki, eins og Sævari.“
Baltasar segir þá stundum hafa hist á Kaffibarnum. „Hann vildi að ég léki sig. En það var nú mikill hæðarmunur á okkur, munar hálfum metra,“ segir hann. „En hann sá einhver líkindi með okkur.“
Á sínum tíma, fyrir 2-3 áratugum, stóð til að gera kvikmynd um málið. Þá segir Baltasar að Sævar hafi hringt og krafist þess að hann myndi leika sig.
- Kæmi til greina að þú myndir leika hann í þáttunum?
„Ég þyrfti þá að lita á mér hárið, safna síðu og fara í meiriháttar andlitsaðgerð,“ segir Baltasar léttur í bragði. „En það er aldrei að vita, kannski leik ég hann á síðari árum lífs hans. Það væri gaman að gera það fyrir hann. En mér þykir það ólíklegt og þetta hefur ekki komið til umræðu.“
Baltasar hefur einnig í áranna rás kynnst fleirum sem flæktust inn í rannsóknina á
mannhvarfsmálunum með einum eða öðrum hætti. Það gerði honum ljóst hversu mikill harmleikur það allt var fyrir marga og einnig fjölskyldur þeirra.
Að sögn Baltasars er samfélagið sé enn að reyna að gera þetta mál upp. Endurupptökunefnd féllst nýverið á að mál fimm sakborninga yrðu tekin upp að nýju. Hann segir þetta ferli hafa tekið alltof langan tíma. Fyrir löngu hafi verið ljóst að rangt var að málum staðið að mörgu leyti, m.a. hvað varðar hið langa gæsluvarðhald yfir Sævari og hvernig yfirheyrslur yfir sakborningum voru framkvæmdar. „Þetta er algjörlega óásættanlegt miðað við það samfélag sem við höldum að við búum í.“
Baltasar segir að uppgjör samfélagsins gagnvart þessu einstaka sakamáli sé í raun hluti af „hinu stóra uppgjöri“ við bankakerfið og fleiri þætti. „Við höfðum trú á þessum stofnunum, dómskerfinu og fjölmiðlum sem við héldum að segðu okkur satt um að bankarnir myndu aldrei hrynja. En svo komumst við að því að þetta var bara ekki þannig. Þetta er svona eins og þegar maður uppgötvar að pabbi manns og mamma eru ekki fullkomin.“ Sömu sögu megi segja um Guðmundar- og Geirfinnsmálin.
Á næstu misserum á mikið eftir að skýrast í málinu, m.a. vegna endurupptökunnar. Baltasar segir það því spennandi að vera að gera sjónvarpsþættina um það leyti.
Baltasar segist vonast til þess að hægt verði að hefja framleiðslu þáttanna á síðari hluta næsta árs, 2018. Nú þegar hafi stórar efnisveitur og sjónvarpsstöðvar sýnt því áhuga að fjármagna verkefnið. Hann segir ferlið ganga þannig fyrir sig að til að byrja með verði leiðandi sjónvarpsstöð fengin til samstarfs til að taka þátt í fjármögnun og framleiðslu. Síðar verði þáttaröðin seld víðar. „Menn fara ekki af stað með svona nema fjármögnunin sé að mestu í höfn.“
Baltasar segist búast við því að íslenskir leikarar verði ráðnir í hlutverk í þáttunum. Það eigi allt eftir að skýrast á síðari stigum.
Ástæðan fyrir því að stefnt er að því að gera þættina á ensku er að hans sögn sú að með þeim hætti sé mun auðveldara að fjármagna þá. Það sé meðal annars jákvætt að því leyti að þá sé hægt að ganga lengra, t.d. hvað varðar að gefa raunsanna mynd af Reykjavík á þeim tíma sem mannshvörfin og rannsókn málanna átti sér stað. „Það verður skemmtilegt fyrir fólk að sjá Reykjavík endurgerða eins og hún var á þessum árum.“