Í dag er Norræni strandhreinsunardagurinn á Snæfellsnesi. Að honum standa Landvernd og nokkur umhverfisverndarsamtök á Norðurlöndum auk annarra skipuleggjenda á Íslandi sem eru Svæðisgarðurinn Snæfellsnes, EarthCheck Snæfellsnesi, Lionshreyfingin á Íslandi og Blái herinn.
Snæfellsnes varð fyrir valinu því að þar hefur lengi verið hugað að umhverfismálum. Sveitarfélögin fimm eru öll með EarthCheck-vottun og Stykkishólmur hefur verið leiðandi afl í plastpokalausum samfélögum, segir í fréttatilkynningu vegna viðburðarins. Nemendur Lýsuhólsskóla hafa þrívegis verið valdir Varðliðar umhverfisins.
Hreinsaðar verða þrjár strendur á Snæfellsnesi og fer samtímis fram strandhreinsun á öllum Norðurlöndunum. Auk fjölda sjálfboðaliða mun umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir, taka þátt í hreinsuninni.
Gestastofan á Malarrifi verður opnuð kl. 11.00. Þar mun landvörður mæta ásamt sögumanni sem mun halda fólki við efnið yfir daginn. Ætlunin er að gefa yngstu kynslóðinni kost á að taka til hendinni líkt og þeim fullorðnu, rétt norðan við Gestastofuna. Á svæðinu eru ýmis leiktæki. Skoðaðir verða ýmsir munir sem finnast og sögumaður mun segja fá þeim og ýmsum rekahlutum. Salthúsið verður skoðað en þar er sýning sem krakkarnir í Grunnskólanum á Lýsuhóli settu upp en þau voru nýlega valin Varðliðar umhverfisins af umhverfisráðuneytinu, Náttúruskóla Reykjavíkur og Skólum á grænni grein. Einnig eru þar litir og pappír til brúks. Gengið verður að vitanum sem er rétt um 100 metra frá gestastofunni.
Opið verður í Breiðabliki allan daginn en lokahóf fer fram kl. 16-18. Formleg dagskrá hefst kl. 17.
Að loknum strandhreinsunardeginum verður boðið í fiskisúpu og skemmtiatriði. Kári Viðarsson í Frystiklefanum fer með gamanmál.
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir, mun taka þátt í strandhreinsuninni ásamt fjölskyldu sinni.
Árlega notar hver Íslendingur að meðaltali 40 kíló af plastumbúðum. Þá eru ekki með taldir hlutir úr plasti sem notaðir eru eins og leikföng, raftæki, húsgögn, leirtau og fleira. Alls eru þetta um 13.000 tonn árlega sem jafngildir 13.000 Yaris-bifreiðum, eða 13.000 fílum.
Af þessum 13.000 tonnum skila sér aðeins 3.360 tonn í endurvinnslu (þar með taldar allar endurgjaldsskyldar drykkjarumbúðir) eða rúmlega 10 kg á íbúa, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landvernd. Það þýðir að rúmlega 29 kg af plastumbúðum eru urðuð á ári. Urðun merkir að ruslinu er þjappað saman í bagga og hann grafinn í jörðu. „Þar heldur svo plastið áfram að vera til um ókomna tíð enda brotnar það aðeins niður í smærri einingar, örplast, en eyðist ekki,“ segir í tilkynningunni.
Stærsti urðunarstaður Íslands er í Álfsnesi en þar er reglulega sprengt til að rýma fyrir nýju rusli. „Frá ruslahaugunum streyma hættulegar gróðurhúsalofttegundir líkt og metan og koltvíoxíð og er lágmarksmengunarvörnum sinnt í Álfsnesi og metan sótt í ruslið með því að bora í það holur og safna metani til notkunar.“