Úthlutað var í fyrsta sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands í dag. Heildarupphæð styrkja var 42,6 milljónir króna en hæsta styrkinn, 7,5 milljónir króna, hlaut Margrét Helga Ögmundsdóttir.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands var formlega stofnaður í desember 2015 með framlögum frá Krabbameinsfélagi Íslands og aðildarfélögum þess. Auk þess runnu minningarsjóður Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson og sjóður Kristínar Björnsdóttur inn í Vísindasjóðinn.
Stofnfé sjóðsins var 250 milljónir króna og er tilgangur hans að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum með því að styrkja rannsóknir á orskökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.
Auglýst var eftir umsóknum um styrki í febrúar og bárust 23 umsóknir. Umsóknirnar fóru til umfjöllunar hjá Vísindaráði Krabbameinsfélagsins sem lagði mat á gæði þeirra. Ráðið lagði til að ellefu umsóknir hlytu styrki að þessu sinni og féllst stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands á þá tillögu.
Umsóknirnar ellefu sem hlutu styrki:
Aðalgeir Arason sameindalíffræðingur hlýtur 1.940.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Leit að erfðabreytileikum með fjölgenaáhrif á myndun brjóstakrabbameins.“
Dr. Birna Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og aðjúnkt hlýtur 4.360.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Prófun á gagnvirku ákvörðunartæki sem aðstoðar karlmenn, sem greinst hafa með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein, við ákvarðanatöku um meðferðarleið.“
Dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir hjúkrunarfræðingur og prófessor hlýtur 2.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Þróun meðferðarsamræðna við konur með krabbamein og maka og áhrif samræðna á aðlögun tengda kynlífi og nánd.“
Dr. Erna Magnúsdóttir sameindalíffræðingur og dósent hlýtur 5.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Sameindaferlar að baki BLIMP1 og EZH2 miðlaðri lifun í Waldenströmsæxlum.“
Dr. Guðrún Valdimarsdóttir sameindalíffræðingur og lektor hlýtur 6.300.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Samspil TGFβ boðleiðarinnar og Thrombospondin-1, áhrif á samskipti æðaþels- og brjóstakrabbameinsfruma.“
Dr. Gunnhildur Ásta Traustadóttir sameindalíffræðingur hlýtur 2.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk Delta-like 1 homolog (DLK1) í greinóttri formgerð brjóstkirtils og brjóstakrabbameini.“
Dr. Inga Reynisdóttir sameindalíffræðingur hlýtur 2.145.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk microRNA á 8p12-p11 í framvindu brjóstakrabbameins.“
Dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir lífefnafræðingur hlýtur 7.500.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk sjálfsátsgensins ATG7 í þróun krabbameina.“
Dr. Stefán Sigurðsson sameindalíffræðingur og dósent hlýtur 4.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Áhrif stökkbreytinga í BRCA2 á vefjasértækni og þróun krabbameina.“
Dr. Valtýr Stefánsson Thors barnasmitsjúkdómalæknir hlýtur 2.814.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Miðlægir bláæðaleggir hjá börnum með illkynja sjúkdóma, fyrirbyggjandi aðgerðir og eftirlit með fylgikvillum.“
Dr. Þórarinn Guðjónsson frumulíffræðingur og prófessor hlýtur 4.560.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk non-coding RNAs í greinóttri formgerð og bandvefs¬umbreytingu þekjuvefjar í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli.“
Stefnt er að því að úthluta árlega úr sjóðnum. Formaður sjóðsstjórnar er Stefán Eiríksson lögfræðingur og varaformaður Sigríður Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur.