Hafin er söfnun fyrir fjölskylduna sem horfir fram á að missa aleiguna eftir að upp komst um veggjatítlu í íbúð þeirra í Hafnarfirði. Engin úrræði standa til boða en í næsta mánuði byrja þau að greiða leigu ofan á afborganirnar af íbúðarláninu.
Greint var frá málinu í fréttatíma Ríkissjónvarpsins undir lok aprílmánaðar. Hjónin Anna Gyða Pétursdóttir og Ingvar Ari Arason eiga þrjú börn og keyptu húsið fyrir um fimm árum. Þegar hafist var handa við að gera húsið upp að innan kom í ljós að lirfur veggjatítlu höfðu étið sig gegnum timbrið og auk þess fannst mygla í þakinu.
Frétt mbl.is: Flókin mál sem hægt er að leysa
Fjölskyldan dvelur nú hjá móður Ingvars en hefur fundið leiguíbúð fyrir næsta mánuð. Ofan á leiguna bætast afborganir af láni með veði í verðlausri eign.
„Þau eru með ónýta eign sem kostar margar milljónir að fjarlægja,“ segir Hilmar Snær Rúnarsson, bróðir Ingvars. Hann og eiginkona hans standa fyrir söfnun fyrir fjölskylduna í von um að létta byrðina.
„Ég ákvað að reyna að hjálpa þeim með þessu móti þar sem þau eru búin að missa aleiguna. Það eru engar tryggingar sem dekka svona og viðlagasjóður tekur ekki þátt í þessu,“ segir Hilmar. „Þau munu alltaf enda á að tapa mörgum milljónum nema eitthvert kraftaverk gerist.“
Styrktarreikningurinn hefur reikningsnúmer 0544-04-762504 og er stílaður á kennitölu Ingvars, 211077-4849.
Hilmar segir að fordæmi sé fyrir því í Hafnarfirði að bærinn sjái um að farga húsinu og að nágrannar séu að þrýsta á bæjaryfirvöld að taka af skarið svo hægt sé að koma í veg fyrir að veggjatítlurnar smitist yfir í næstu hús.