Vegfarandi sem átti leið um þjóðveg 1 rétt austan við Hellu í dag lenti á eftir dráttarvél með vagn í eftirdragi sem á var ansi óvenjulegur farmur. Þar lá á vagninum dauður hestur. Að sögn vegfarandans hafði myndast bílalest á eftir dráttarvélinni sem ók hægt áfram en það sem vakti mesta undran vegfarenda var þó að ekki hafði verið breitt segl eða nokkuð yfir hræið, sem lá fyrir allra augum á vagninum.
„Það þætti nú betra að fólk myndi breiða yfir svona,“ segir Magnús Ragnarsson hjá lögreglunni á Hvolsvelli, í samtali við mbl.is. Sjálfur kveðst hann ekki vita hvers eðlis var en þótti líklegt að viðkomandi hefði verið á leið með hræið á viðurkenndan urðunarstað sem er skammt frá. Magnúsi er ekki kunnugt um hvort einhver viðurlög séu við því að ferðast með farminn með þessum hætti og vill ekki fullyrða um neitt slíkt. „En þetta er almenn tillitssemi því þetta er ekkert endilega fallegt fyrir fólk að sjá,“ segir Magnús.