Sinubruni varð á um hálfs hektara stóru svæði í friðlandi Akureyrar í Krossanesborgum í dag. Slökkviliði Akureyrar barst tilkynning frá vegfaranda um eldinn um þrjúleytið í dag og fór allt tiltækt lið slökkviliðsins á vettvang. Fátt virðist benda til annars en að um íkveikju hafi verið að ræða.
„Miðað við vindátt og þurrk sem hefur verið undanfarið brugðumst við hratt við. Við fórum allir og kölluðum meira að segja inn fjóra til viðbótar,“ segir Sigurður Sæmundsson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á Akureyri, í samtali við mbl.is.
„Þetta er náttúrlega alveg skraufþurrt núna og lítill gróður kominn í þetta. Fuglar eru sennilega ekki sestir að en þeir eru komnir þarna á svæðið, það er mikið fuglavarp þarna,“ segir Sigurður. Það gekk ágætlega að slökkva eldinn. Til þess voru notaðir svokallaðir nornakústar og vatni var sprautað að lokum til að koma í veg fyrir að eldurinn tæki sig aftur upp.
„Það er erfitt að slökkva í þessu, hrísið gerir manni lífið leitt,“ segir Sigurður. Þegar hefur slökkviliðið á Akureyri sinnt tveimur sambærilegum útköllum í vor, öðru innanbæjar á Akureyri en hinu inni í Öxnadal. Í þetta sinn var mannabyggð ekki í hættu en sinubruni sem þessi getur jafnframt haft alvarleg áhrif á lífríki og náttúru.