Endanleg ákvörðun ekki verið tekin

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við skulum beina sjónum okkar meira að útkomunni, því sem gerist í skólastarfinu sjálfu og hvernig það gagnast krökkunum í skólunum,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann brást við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um fyrirhugaða sameiningu Fjölbrautaskólann við Ármúla og Tækniskólans. Spurði hún hvort ríkisstjórnin stefndi að því að ganga mjög langt í þá átt að einkavæða almannaþjónustuna í landinu.

Vísaði Katrín til þess að stjórnarliðar hefðu sagt að sameiningaráformin ættu ekki að koma á óvart í ljósi þess að talað væri um í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin hefði áhuga á fjölbreyttum rekstrarformum. Benti hún á að í sáttmálanum væru líka höfð uppi stór orð um aukið samráð, gagnsæi og góða stjórnarhætti og spurði hvort ríkisstjórnin, sem hefði aðeins eins manns meirihluta í þinginu, gæti ekki gert betur í þeim efnum.

Forsætisráðherra lagði áherslu á það, vegna tals um samráðleysi, að sameining Fjölbrautaskólans við Ármúla og Tækniskóla væri enn aðeins í skoðun og engin endanleg ákvörðun verið tekin. „Varðandi það hvort verið sé að boða stóraukna einkavæðingu almannaþjónustu er svarið ósköp einfaldlega: Nei. En það er alveg stórundarlegt á hinn á bóginn að nálgast þetta mál út frá því að verið sé að einkavæða almannaþjónustu, vegna þess að svo er ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka