„Þetta var engin krafa af minni hálfu“

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/RAX

Þingmenn úr röðum stjórnarandstæðinga tóku til máls á Alþingi í dag undir liðnum fundarstjórn forseta og gagnrýndu harðlega ósk sem komið hefði fram á fundi atvinnuveganefndar í morgun um að stjórnarandstæðinga drægu til baka þingmál sem tengdust fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem samráðshópur um fiskveiðistjórnarkerfið hefði verið settur á laggirnar.

Málshefjandi var Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem fagnaði stofnun samráðshópsins þó slíkt hefði verið gert áður. „En að málefnastaðan sé orðin þannig að menn séu að reyna að fækka málum handvirkt á dagskrá með því að stinga upp á því við minni hlutann á þinginu að draga mál til baka sem tengjast þessum málaflokki finnst mér algjörlega út í hött og ekki boðleg vinnubrögð og ég geri þess vegna miklar athugasemdir við það.“

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku í hliðstæðan streng. Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði óboðlegt að beðið væri um það að mál séu tekin af dagskrá og undir það tók Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurði hvort þessi framganga væri hugsuð af hálfu stjóenarmeirihlutans sem aðferð fyrir ráðherra til að drepa óþægileg mál.

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar, sagðist ekki hafa átt von á þessum viðbrögðum. Hann hefði talið að málið hefði verið rætt á friðsamlegum nótum í nefndinni í morgun. Hann hafi spurt hvort nefndarmenn litu svo á að með skipun þverpólitísks samráðshóps ætti að hafa áhrif á þau þingmál sem sneru að fiskveiðistjórnuninni og væru til umfjöllunar í nefndinni. Ekki hefði verið um að ræða kröfu um það.

„Þetta var engin krafa af minni hálfu, þetta var meira að segja heldur ekki einu sinni tillaga af minni hálfu, þetta var spurning af minni hálfu til þeirra sem málið snerti í nefndinni. Um þetta var rætt í friði og spekt í nefndinni í morgun. Síðan allt í einu hrökkva allir í kút hér, að minnsta kosti ég. Þá eru komin upp hér einhver slagorð, einhverjar yfirlýsingar um misbeitingu valds og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var bara spurning til nafndarmanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert