Hvert vandamálið og frumhlaupið á fætur öðru

Grunnskólakennarar segja að hvert vandamálið og frumhlaupið á fætur öðru …
Grunnskólakennarar segja að hvert vandamálið og frumhlaupið á fætur öðru hafi komið upp frá því að Menntamálastofnun var sett á fót. mbl.is/Árni Sæberg

Ábendingar frá fag- og hagsmunaaðilum um hvað betur megi fara eru oftar en ekki hunsaðar af Menntamálastofnun og ekkert raunverulegt samráð er um stefnumótun og stefnumörkun í málefnum grunskólans. Afleiðingar slíks geta verið alvarlegar og slíkt „sýndarsamráð er tímaeyðsla og skilar engu.“ Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á ársfundi Félags grunnskólakennara.

Þar er skorað á mennta- og menningarmálaráðherra að taka starfsemi og tilgang stofnunarinnar til alvarlegrar endurskoðunar. Segir þar að hvert vandamálið og frumhlaupið á fætur öðru hafi komið upp frá því að stofnunin var sett á fót. Ársfundur FG skorar jafnframt á ráðherra að beita sér af þunga fyrir því að raunverulegt samráð um stefnumótun og stefnumörkun í málefnum grunnskólans verði haft við hagsmunaaðila.

Segir í ályktuninni að það sé með öllu óþolandi að hvert stórverkefnið á fætur öðru sé þvingað inn í grunnskóla landsins án samráðs við þá sem eiga að vinna verkin, t.d. kennara og sveitarfélög.

Þá er einnig nefnd umræðan um mögulega sameiningu Fjölbrautaskólans í Ármúla og Tækniskólans og segir að samráðsleysið í því samhengi sé ámælisvert.

„Ársfundur FG telur afar mikilvægt að breytingar sem gerðar eru á starfsumhverfi grunnskóla með stjórnvaldsákvörðunum byggi á faglegum grunni og séu unnar í samráði og sátt við hagsmunaaðila og að fjármagn sé tryggt áður en ráðist er í innleiðingu,“ segir að lokum í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert