„Þessi ljósabrot hafa verið alltof algeng hjá okkur. Það var sérstaklega slæmt tilfellið um helgina, staurunum var gjösamlega rústað,“ segir Aðalsteinn Guðmundsson, kirkjuvörður í Langholtskirkju, en aðfararnótt sunnudags voru þrír ljósastaurar við kirkjuna sparkaðir niður og gjöreyðilagðir. Þá voru ljósker rifin af fleiri staurum. Skemmdarverk af þessu tagi eru reglulega unnin á kirkjunni.
„Hver staur kostar um 60 til 70 þúsund krónur, þannig þetta er tilfinnanlega mikið tjón fyrir okkur. Það er mjög erfitt að eiga við þessa skemmdarvarga.“ Aðalsteinn veit ekki hverjir voru þarna að verki en grunar að unglingar hafi verið við drykkju á svæðinu, enda fundust bjórdósir og sígarettustubbar á vettvangi.
Í ljósi þess að staurarnir hafa ítrekað verið sparkaðir niður og eyðilagðir hefur sú umræða komið upp innan kirkjunnar að einfaldlega fjarlægja þá. Með því yrði hins vegar ekki hægt að sporna alfarið við skemmdarverkum. „Það er líka algengt að krotað sé á kirkjuna og rúður brotnar, líkt og gerist í skólunum í kringum okkur.“
Aðspurður segir Aðalsteinn skemmdarverkin ekki endilega hafa aukist, heldur virðist þau koma í bylgjum, en þetta er fyrsta stóra skemmdarverkið sem unnið hefur verið á kirkjunni frá því um áramót. Hvað skemmdarvörgunum gengur til veit Aðalsteinn ekki en tilgangurinn virðist einfaldlega vera að skemma eitthvað.
Umræða skapaðist um skemmdarverkin á kirkjunni inni á facebook-síðu Langholtshverfis, en þar vilja einhverjir meina að skemmdarverk hafi verið tíð í hverfinu í vetur. Og að skemmdarverkum og þjófnuðum hafi almennt fjölgað eftir að lögreglustöðinni á Grensás var lokað fyrir einu og hálfu ári.